Tætt tré á Þingvöllum vöktu athygli

Gróðurinn leit illa út í gær.
Gróðurinn leit illa út í gær. Ljósmynd/Aðsend

Mörgum sem óku Vallaveg um Þingvelli í gær brá í brún þar sem búið var að klippa niður tré og annan gróður meðfram veginum.

Að sögn Einars Más Magnússonar, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni, var gróðurinn kominn inn á veginn og því þurfti að grisja hann.

Spurningarmerki hafa engu að síður verið sett við aðferðina. Trén virka rifin og tætt og klofin, líkt og börkurinn hafi tæst af þeim.

Einar Már segir eðlilegar skýringar liggja að baki. „Málið er að við erum búnir að loka Þingvallaveginum og vísum allri umferð niður á Vallaveg. Þar er mjög þröngt og gróðurinn farinn að ganga mikið inn á veginn. Farinn að rispa bíla og skyggja á umferð sem kom á móti,“ útskýrir Einar.

Einhverjir héldu að um skemmdarverk hefði verið að ræða.
Einhverjir héldu að um skemmdarverk hefði verið að ræða. Ljósmynd/Aðsend

„Þess vegna fórum við í það að grisja. Þegar þetta er svona mikið þá eru sláttuvélar og klippur notaðar í verkið. Þetta er mest bara lauf og grannar greinar sem þarf að fjarlægja en svo eru stórar greinar inn á milli. Þegar sláttuvélarnar fara í þær þá virkar þetta eins og einhver hafi brotið þær. Það er það sem fer í fólk,“ bætir Einar við.

„Það þarf að gera þetta í tveimur atrennum. Þá förum við fyrst með sláttuvélarnar, sem var gert núna aðfaranótt laugardags, og klippum gróðurinn en stærstu greinarnar virka rifnar og ljótar eftir á. Næst klárum við þetta með fínsnyrtingu. Ég kallaði út mann til að fara og klára það í dag,“ segir Einar enn fremur.

Hann segir að gróðurinn jafni sig á 3-4 dögum og að fólk ætti ekki að sjá nein ummerki um miðja næstu viku. „Þetta er viðhaldsaðgerð og þetta þarf að gera á nokkurra ára fresti,“ útskýrir Einar.

„Vonandi höfum við ekki stuðað neinn með þessu,“ segir hann að lokum.

Vallavegur er mjór og hætta skapaðist þar sem gróður var …
Vallavegur er mjór og hætta skapaðist þar sem gróður var farinn að vaxa langt inn á veg. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert