Ekið á hjólandi stúlku í Grafarholti

Gatnamótin sem um ræðir. Eins og sjá má er ekki …
Gatnamótin sem um ræðir. Eins og sjá má er ekki merkt gangbraut yfir götuna, þó að gert sé ráð fyrir að gangandi umferð fari þar yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekið var á ellefu ára gamla stúlku þar sem hún hjólaði með vinkonu sinni í Grafarholtinu síðdegis í fyrradag. Faðir stúlkunnar vill vekja athygli á gangbrautinni þar sem slysið varð, sem fáir taki eftir og margir keyri hratt yfir.

„Þetta er gangbraut sem er þvert yfir Vínlandsleiðina og liggur á milli Krónunnar og Húsasmiðjunnar. Þetta er gangbraut sem er alveg ómerkt og við fyrstu sýn virðist hún kannski ekki vera það þótt hún sé það vissulega,“ segir Haukur Jónsson.

Dóttir Hauks, Franziska, var heppin að sleppa með lítils háttar meiðsli eftir að ekið var á hana á gangbrautinni í gær.

„Það er tekið úr eyjunni sem aðgreinir akreinarnar þannig að það er gert ráð fyrir því að fólk labbi yfir en það er engin málning og engin merki. Maður hefur séð bíla koma þarna á mikilli ferð úr báðum áttum,“ segir Haukur.

Franziska var með hjálm þegar slysið varð og virðist ekki hafa slasast mikið þó að hjólið og hjálmurinn hafi eyðilagst.

„Bílinn hafði ekki séð þær og lendir á henni. Hún slapp í rauninni ótrúlega vel. Við fórum með hana upp á bráðamóttöku og hún var skoðuð vel,“ segir Haukur.

Hann bætir við að maðurinn sem keyrði á Franzisku hafi verið alveg miður sín yfir að hafa ekki séð stelpurnar á gangbrautinni. Hann segir að íbúar á svæðinu hafi löngum haft áhyggjur af gangbrautinni og nauðsynlegt sé að koma þar upp viðeigandi merkingum svo hægt sé að koma í veg fyrir fleiri slys í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert