Unnu afrek í fjallahlaupi í Ölpunum

Jóda, Halldóra og Hafdís stóðu sig með prýði í fjallahlaupunum.
Jóda, Halldóra og Hafdís stóðu sig með prýði í fjallahlaupunum. Ljósmynd/Aðsend

Þrjár íslenskar konur tóku þátt í UT4M-fjallahlaupaseríunni sem fram fór í Ölpunum í nánd við Grenoble í Frakklandi á föstudaginn. Þær Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir og Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir hlupu 95 km hlaup með 5.500 metra hækkun og Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hljóp 169 km hlaup með 11.000 metra hækkun.

Hafdís hafnaði í fyrsta sæti í sínum aldursflokki en hún tók þátt í 95 km hlaupi sem hún kláraði á 18 klukkustundum, sjö mínútum og 22 sekúndum.  Í hlaupinu var m.a. farið um fjallatindana Sous l‘Echaillen, Grand Colon og Chamechaude.  

Gekk á Esjuna 89 sinnum

Átján klukkustunda fjallahlaup krefst mikils undirbúnings og æfði Hafdís stíft fram að keppninni. Æfingin fólst að miklu leyti í því að ganga Laugaveginn og Esjuna. „Það besta við fjallahlaupin er náttúran og fegurðin, og að geta ferðast um náttúruna á þennan hátt. Alveg ólýsanlegt og algjör forréttindi,“ segir Hafdís. „Ég hef gengið á Esjuna 89 sinnum síðan í febrúar. Markmiðið er að fara 100 sinnum á þessu ári og það fer að styttast í hundruðustu ferðina.“

Hafdís byrjaði að hlaupa fyrir tíu árum en spreytti sig fyrst á fjallahlaupi fyrir 5 árum. Hún skráði sig í fjallahlaupin í Ölpunum í Frakklandi í janúar, eftir að hafa heyrt af þeim frá Íslendingum sem höfðu tekið þátt.

Langflestir þátttakendur í hlaupinu voru Frakkar og frönsk matarmenning setti sinn svip á viðburðinn. Sjö matarstöðvar voru til taks á leiðinni svo nóga næringu var að fá í löngu fjallahlaupinu.

„Þetta var mjög „lókal“ hlaup og æðislegur matur á leiðinni. Mikil hvatning og stemning, hlaupið er greinilega heimamönnum kært. Svo kom ég akkúrat í mark á miðnætti, sem var bara gaman. Veðrið var mjög gott þarna, svolítið kalt á toppnum reyndar en við getum hiklaust mælt með þessu hlaupi.“

Níu Íslendingar taka þátt í fjallahlaupi á Mont Blanc

Fjallahlaup eru vinsæl meðal Íslendinga en níu Íslendingar taka þátt í hinum víðfrægu Mont Blanc-utanvegahlaupum sem hefjast í vikunni. Fyrsta hlaupið þar er 119 km og hefst á morgun en þar mun Gunnar Júlíusson taka þátt.

Á heimasíðu hlaupsins, Irunfar.com, er fjallað um hlaupara sem þykja líklegir til afreka. Þar er minnst á Þorberg Inga Jónsson en hann hafnaði í 6. sæti í ccc hlaupinu í Mont Blanc árið 2017.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert