Þessari vitleysu verður að ljúka

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessari vitleysu verður að ljúka,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á Alþingi í kvöld þegar hann ræddi um áform stjórnenda N1 um að taka á ný upp kaupaukakerfi. „Þessa tillögu verður að draga til baka.“

Ásmundur Einar sagði að laun forstjóra N1 hefðu á milli áranna 2016 og 2017 hækkað um rúma 1 milljón króna á mánuði en á þeim tíma hefði fyrirtækið verið í meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna. Nú bærust af því fréttir að tillaga lægi fyrir hluthafafundi síðar í þessum mánuði um að taka upp bónusgreiðslukerfi. Lífeyrissjóðir og aðrir, sem ættu í þessu fyrirtæki yrðu að stöðva þetta.

Ásmundur Einar sagði að veturinn framundan myndi án efa litast af kjarasamningum. „Það versta sem gæti gerst væru hækkanir sem yrðu étnar upp af verðbólguskoti. Ég er sannfærður um að það er hægt að forðast þá sviðsmynd en til þess að svo geti orðið verða allir að taka á. Við, sem samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar erum með hæstu tekjurnar í opinbera geiranum, verðum að horfa í eigin barm. Samhliða því verða verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir hjá forustufólki þeirra fyrirtækja, sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna," sagði Ásmundur Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert