Met fyrir „veðurnördin“ féll í nótt

Hái loftþrýstingurinn sem mældist í nótt hefur áhrif á lægð …
Hái loftþrýstingurinn sem mældist í nótt hefur áhrif á lægð sem stefnir nú á landið og á þátt í því að skapa mikinn vind með lægðinni. Kort/Veðurstofa Íslands

Hæsti loftþrýstingur sem mælst hefur hér á landi í október mældist í nótt, 1046,1 mb. Fyrri októberháþrýstimet, 1044,5 mb, mældust á Akureyri árið 1895 og á Ísafirði árið 1919. 

Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að fólk finni almennt ekki fyrir háum þrýstingi og því sé metið kannski „meira svona fyrir veðurnördin“. Metið er ekki langt frá landsmetinu, en hæsti loftþrýstingur sem hefur mælst á Íslandi var 1058,5 mb í Reykjavík, 3. janúar 1841.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur telur sig án efa tilheyra hópi veðurnörda en hann fjallaði um metið á facebooksíðu sinni í gærkvöldi. „Nú fyrir háttinn þykist ég hafa séð mælingar nægilega margra stígandi loftvoga til að fullyrða megi að yfir aldargamalt háþrýstingsmet sé fallið!“ segir meðal annars í færslu hans þar sem hann birtir einnig mælingar frá Veðurstofunni á loftþrýstingnum.

Þó svo að þrýstingurinn sé ekki áþreifanlegur hefur hann samt sem áður þau áhrif að magna upp vindstyrkinn í lægð sem mætir háþrýstisvæðinu í kvöld. „Háþrýstingi fylgir oft bjart veður en þessi hái þrýstingur er að þokast austur af landinu og svo kemur lægðin vestan að og þrýstimunurinn skapar vindinn. Það að það sé svona hár þrýstingur rétt austan við land skapar mikinn þrýstimun frá austri til vesturs þegar lægðin kemur inn á Grænlandshaf seinni partinn. Þessi hái þrýstingur á einhvers konar þátt í því að skapa mikinn vind í kvöld þegar lægðin nálgast,“ segir Teitur.

Gert er ráð fyrir hvassviðri eða stormi í kvöld og í nótt með slyddu eða rign­ingu og hlýn­andi veðri en snjó­komu til fjalla. Bú­ast má við vind­hviðum sem ná allt að 35 m/​s í vind­strengj­um við fjöll norðvest­an­til á land­inu í nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert