Einungis 19% stjórnarformanna konur

Rakel Sveinsdóttir formaður FKA og Ásmundur Einar Daðason félags- og …
Rakel Sveinsdóttir formaður FKA og Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra á ráðstefnunni í dag. Ljósmynd/FKA

Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins er 26% og einungis 10% forstjóra og 19% stjórnarformanna þessara fyrirtækja eru konur. Konur eru þó orðnar 40% stjórnarmanna í 100 stærstu fyrirtækjunum, samkvæmt nýjum könnunum Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.

Á milli fjörutíu og fimmtíu fyrirtæki skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að vinna að jafnrétti á ráðstefnunni „Rétt‘ upp hönd“, sem fram fór á Hótel Nordica í dag. Þar var fjallað um hreyfiaflsverkefnið Jafnvægisvogina, sem FKA hefur sett af stað ásamt velferðarráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, Morgunblaðinu og Pipar\TBWA.

Mark­mið Jafn­væg­is­vog­ar­inn­ar er að árið 2027 verði kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja og opinberra aðila á Íslandi orðið 40/​60, en tilgangurinn með verkefninu er að virkja íslenskt viðskiptalíf og opinbera aðila til þess að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

Viðmiðum laganna ekki náð

Í fréttatilkynningu frá Félagi kvenna í atvinnulífinu segir að konur séu einungis 32,6% stjórnarmanna í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn. Það nær ekki því 40% viðmiði sem sett var í lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi árið 2013 og hefur hlutfall kvenna í stjórnum lækkað lítillega frá árinu 2014, en staðan hvað þetta varðar er þó jafnari en fyrir lagasetninguna, þegar um 20% stjórnarmanna í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn voru konur.

Svona er staðan hvað varðar kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi í …
Svona er staðan hvað varðar kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi í dag. Tafla/FKA

Í tilkynningu FKA segir að auknum hlut kvenna í stjórnum frá lagasetningu hafi ekki fylgt sambærileg aukning á hlutfalli kvenna sem gegni stjórnarformennsku. Frá lagasetningu hefur hlutfall kvenna í hópi stjórnarformanna félaga með fleiri en 50 starfsmenn meira að segja farið lækkandi, úr 18% á árinu 2013 niður í 15% á árinu 2017 og er nánast komið á sama stað og fyrir lagasetningu.

„Staðan er örlítið betri meðal stjórnarformanna félaga á hlutabréfamarkaði, þar sem hlutfall kvenna sem stjórnarformenn er 26% en konur eru aðeins 19% stjórnarformanna 100 stærstu fyrirtækja landsins, mælt eftir veltu,” segir í tilkynningu FKA.

„Sorgleg sóun á mannauði“

Rakel Sveinsdóttir formaður FKA segir að allar rannsóknir styðji það að þegar blönduð teymi karla og kvenna, nái fyrirtæki hreinlega betri árangri.

„Það er líka svo sorg­leg sóun á mannauði að mennta all­ar þess­ar kraft­miklu ungu kon­ur, en hleypa þeim ekki til áhrifa í fyr­ir­tækj­un­um. Þetta slag­orð okk­ar á ráðstefn­unni, Rétt´upp hönd, er bæði hvatn­ing til kvenna að gera sig sýni­legri inn­an fyr­ir­tækja og einnig hvatn­ing til karl­stjórn­enda að sjá kon­urn­ar sem eru til staðar og skapa þeim tæki­færi. Það er kominn tími til að láta hendur standa fram úr ermum og láta verkin tala. Jafnrétti er ekki einkamál kvenna,“ segir Rakel í fréttatilkynningu.

Hér má nálgast mælaborð með tölfræðiupplýsingum um jafnrétti, bæði í fyrirtækjarekstri og í opinberum störfum.

Allir þeir sem ætla að láta til sín taka varðandi …
Allir þeir sem ætla að láta til sín taka varðandi jafnrétti kynjanna rétt' upp hönd á ráðstefnunni í dag. Ljósmynd/FKA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert