Katrín svaraði fyrir „fullveldisfernur“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með fullveldisfernurnar frá MS í fanginu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með fullveldisfernurnar frá MS í fanginu. Ljósmynd/Af vefnum fullveldi1918.is

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að því á Alþingi í dag, hvort hvaða fyrirtæki sem er gæti útbúið nýjar umbúðir í tilefni af fullveldisafmæli Íslands og fengið svo forsætisráðherra til þess að sitja fyrir og auglýsa vörurnar.

Tilefni fyrirspurnarinnar eru nýjar „fullveldisfernur“ sem Mjólkursamsalan (MS) hefur útbúið, en þær eru afrakstur samstarfs afmælisnefndar fullveldis Íslands og MS. Á fernunum má finna fróðleiksmola um markverða atburði sem áttu sér stað á fullveldisárinu 1918. Á föstudag veitti forsætisráðherra fyrstu mjólkurfernunum viðtöku, við athöfn í anddyri þinghússins.

Stundin fjallaði um þetta mál í dag og fékk þau svör frá skrifstofustjóra þingsins, Helga Bernódussyni, að reglur hafi ekki verið brotnar er forsætisráðherra sat fyrir með mjólkurfernurnar í anddyri hússins.

„Reglan er sú að húsið er ekki notað til kynningar á vörum og við teljum nú að það hafi ekki verið í þessu tilviki,“ sagði Helgi við Stundina og lagði áherslu á að þetta væri viðburður tengdur fullveldisafmælinu.

Forsætisráðherra líklega mesti áhrifavaldur landsins

„Í ríkissjónvarpinu hafa verið sýndir þættir síðustu vikurnar sem eru kallaðir Sítengd. Þar er farið yfir áhrif af markaðssetningu áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Í ljósi þess hlýtur maður að spyrja: Hvað kostar klukkustund með forsætisráðherra, líklega mesta áhrifavaldi landsins? Er virkilega ekki um dulda auglýsingu að ræða? Hefði mögulega átt að setja undir myndina #samstarf, eins og Neytendastofa hefur ítrekað bent á að sé nauðsynleg forsenda þess að neytendur átti sig á hvort um dulda auglýsingu sé að ræða eða ekki?,“ spurði Þorgerður Katrín.

Í svari sínu sagði þakkaði Katrín fyrir áhugaverða fyrirspurn og útskýrði að aldarafmælisnefnd, þar sem fulltrúar allra flokka sitji, hefði beðið sig um að taka á móti mjólkurfernunum sem um ræðir.

„Ég kannaði hvort þessi atburður væri með leyfi Alþingis því að við vitum að Alþingishúsið hefur stundum verið notað án leyfis í slíkum tilgangi. Fékkst það staðfest að svo væri og þetta var gert með leyfi Alþingis. Þar sem ég hef tekið þátt í óteljandi viðburðum á þessu afmælisári tengdum fullveldinu, bæði með einkafyrirtækjum, frjálsum félagasamtökum og stofnunum, sá ég í í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að veita þessum mjólkurfernum viðtöku,“ sagði Katrín, sem einnig þakkaði Þorgerði Katrínu „fyrir að hafa þá trú á forsætisráðherra að hún teljist í hópi hinna miklu áhrifavalda á samfélagsmiðlum“ en sagðist sjálf ekki viss um að svo væri.

Þorgerður Katrín sagðist miður sín yfir svari Katrínar og telur ljóst um að dulda auglýsingu hafi verið að ræða, innan veggja þinghússins. Hún spurði hvernig forsætisráðherra myndi taka í svipaðar tillögur í framtíðinni og hvort ekki væri rétt að setja einhvern ramma utan um atburði sem þessa.

Katrín lagði til að Þorgerður Katrín myndi taka þetta mál upp við forsætisnefnd Alþingis, sem marki stefnu um notkun þinghússins.

„Ég er algjörlega tilbúin til slíks samtals við hæstvirtan þingmann og aðra um hvernig við nýtum þinghúsið og hvort við viljum setja slíkar skýrari reglur. Ég vil bara ítreka það sem kom fram, að þetta var gert með leyfi yfirstjórnar þingsins að frumkvæði afmælisnefndar Alþingis,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert