Ör fjölgun háskólamenntaðra

Nemendur í Háskóla Íslands.
Nemendur í Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert

Háskólamenntuðum á vinnumarkaði hefur fjölgað mjög ört undanfarin ár og eru þeir nú rúmlega þriðjungur (37%) af vinnuaflinu, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Stofnunin gerir ráð fyrir því að hlutfall háskólamenntaðra aukist hratt fram til ársins 2032. Um 45% kvenna á vinnumarkaði eru með háskólamenntun og gert er ráð fyrir að það hlutfall muni hækka í 50% árið 2032. Hlutfallslega færri karlar á vinnumarkaði eru háskólamenntaðir eða um 30% og býst Vinnumálastofnun við því að þetta hlutfall verði um 35% árið 2032, að því er kemur fram í tilkynningu frá Bandalagi háskólamanna.

Um eitt þúsund háskólamenntaðir atvinnulausir

Samtals voru 1.126 háskólamenntaðir skráðir án atvinnu í september síðastliðnum, eða 477 karlar og 649 konur. Þeim hefur fjölgað nokkuð milli ára en á sama tíma í fyrra voru rétt rúmlega eitt þúsund háskólamenntaðir skráðir án atvinnu.

Atvinnuleysi jókst verulega meðal háskólamenntaðra fyrstu árin eftir efnahagshrunið en síðan hefur dregið jafnt og þétt úr því. Þegar mest var voru 2.452 háskólamenntaðir skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun, eða í júlí 2009.

Síðustu þrjú ár hefur fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá nánast staðið í stað og verið á bilinu 1.000 til 1.300. Ef atvinnuleysi háskólamenntaðra á þessu tímabili er skoðað eftir námsgreinum kemur í ljós að yfirleitt er tæplega helmingurinn fólk með próf í félags- eða hugvísindum, þ.e. í lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, mannfræði, sagnfræði, heimspeki, tungumálum eða skyldum greinum, að því er segir í tilkynningunni.

Atvinnulífið hefur ekki undan

Stöðugt og viðvarandi atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra bendir til þess að spurn atvinnulífsins eftir fólki með slíka menntun sé almennt minni en framboðið. Mikill fjöldi útskrifast úr háskólanámi á hverju ári og atvinnulífið virðist ekki hafa undan að skapa störf fyrir allt þetta fólk sem hæfa menntun þess.

Kort/mbl.is

Tölur um fjölda háskólamenntaðra sem vinna störf sem ekki krefjast háskólamenntunar benda í sömu átt, samkvæmt tilkynningunni. Árið 2017 voru um 15% háskólamenntaðra á vinnumarkaði í störfum sem ekki kröfðust háskólamenntunar en á árunum 1991–2002 var samsvarandi hlutfall á bilinu 6–9% og 9–12% á árunum 2003 til 2012. Þetta fólk er ekki að nýta menntun sína og sérþekkingu í starfi og þar með má segja að fjárfesting bæði einstaklinga og hins opinbera í háskólamenntun fari með vissum hætti í súginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert