Hvað stöðvar konurnar?

Engin kona starfar sem verðbréfamiðlari á Íslandi.
Engin kona starfar sem verðbréfamiðlari á Íslandi. AFP

„Við höfum haldið reglulega jafnréttisfundi undanfarin ár og nú beinum við sjónum okkar að kynjahlutfalli í ólíkum atvinnugreinum,“ segir Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka.

Íslandsbanki býður á fund undir yfirskriftinni Hvar vilja konur vinna? á Hilton í dag. Þar verður meðal annars til umræðu hvaða leiðir konur fara í menntun og í hvaða störf þær fara að menntun lokinni.

„Við höfum mikinn áhuga á þessu,“ segir Edda. „Sérstaklega í tengslum við fjárfestingabanka, þar starfa mjög fáar konur og það starfar engin kona sem verðbréfamiðlari á Íslandi. Samt hafa þær jafn mikla menntun, það eru jafnmargar konur og karlar í námi í hagfræði og viðskiptafræði.“

„Við veltum því fyrir okkur hvað það er sem stöðvar þær. Hafa þær ekki áhuga eða er það menningin sem fælir þær frá,“ veltir Edda fyrir sér. Þá verða greinar eins og sjávarútvegur og orkumál einnig til umræðu.

Í erindi sínu fer Edda yfir hvernig þróunin hefur verið í menntun og í efstu lögum vinnumarkaðarins, svo sem hvort kynjakvótinn hafi skilað sér inn í framkvæmdastjórnir. „Við sjáum að 22% af framkvæmdastjórum skráðra fyrirtækja eru konur, en það eru fjórar framkvæmdastjórnir skráðra félaga þar sem eru engar konur.“

Auk Eddu verður Sigrún Hjartardóttir frá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka með erindi, en að því loknu taka við stuttar framsögur og pallborðsumræður.

Allir eru velkomnir á fundinn, en hægt er að skrá sig á vef Íslandsbanka. „Það eru hátt í 350 búnir að skrá sig, svo þetta verður fjölmennt og fjörugt,“ segir Edda að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert