Vissu ekki að Anna Kolbrún kallaði sig þroskaþjálfa

Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands.
Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands.

Félagsmenn í Þroskaþjálfafélagi Íslands höfðu samband við skrifstofu félagsins eftir birtingu fréttar um að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og ein sexmenninganna sem fóru óvarlegum orðum um samstarfsfólk sitt og aðra á barnum Klaustri, væri sögð með starfsheitið þroskaþjálfi á vef Alþingis. 

Þroskaþjálfarnir voru ósáttir við fréttaflutning um að Anna Kolbrún hefði verið aðili að samræðum þar sem talað var niðrandi um fatlað fólk og töldu það ekki samræmast starfsskyldum stéttarinnar. Við eftirgrennslan fannst nafn Önnu Kolbrúnar ekki í félagaskrá Þroskaþjálfafélagsins og Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður þess, segir að í framhaldinu hafi verið haft samband við embætti landlæknis sem heldur utan um skrár um heilbrigðismenntaða starfsmenn, en starf þroskaþjálfa fellur þar undir.

„Við fengum þar þær upplýsingar að Anna Kolbrún hefði hvorki hlotið þroskaþjálfamenntun né væri með starfsleyfi sem slíkur,“ segir Laufey. „Þetta er lögverndað starfsheiti og það er góð og gild ástæða fyrir því. Við störfum samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsfólk.“

Hún segir að félagið sé lítið og yfirleitt sé vitað um flesta þá sem útskrifist með þessa menntun. „Það á enginn að geta starfað sem þroskaþjálfi ef hann er það ekki. Mér virðist að Anna Kolbrún hafi gert það, en það er algerlega á ábyrgð vinnuveitenda að ganga úr skugga um að fólk sé með þá menntun sem það segist hafa.“

Svipað mál hefur áður komið upp

Spurð hvort áþekkt mál hafi áður komið upp í félaginu; þ.e. að einstaklingur gefi sig ranglega út fyrir að vera með þroskaþjálfamenntun, segist Laufey í fljótu bragði muna eftir einu slíku tilviki. „Það var farið með það nákvæmlega eins og þetta mál og það var tilkynnt til landlæknis.“

Ekki lengur í höndum félagsins

Anna Kolbrún hefur verið titluð þroskaþjálfi a.m.k. frá alþingiskosningunum 2007 þegar hún var í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi. Í ljósi þess að hún hefur gegnt opinberum störfum um nokkurra ára skeið og yfirleitt notað starfsheitið þroskaþjálfi; hvers vegna gerðuð þið ekki athugasemd við það fyrr?

„Við höfðum ekki hugmynd um það fyrr en þetta Klaustursmál kom upp,“ segir Laufey. „Mér finnst þetta virkilega sorglegt og leiðinlegt fyrir alla sem að því koma. En málið er núna á borði embættis landlæknis og úr okkar höndum.“ 

Ekki náðist í Önnu Kolbrúnu Árnadóttur við vinnslu fréttarinnar.

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert