383 grunnskólaleiðbeinendur á undanþágu

mbl.is

„Skortur á grunnskólakennurum var fyrirsjáanleg auk þess sem margir einstaklingar með grunnskólamenntun hafa leitað í önnur betur launuð störf. Þess vegna kemur fjöldi samþykktra undanþágubeiðna fyrir kennara án kennsluréttinda í grunnskólum ekki á óvart,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

Hún bætir við að fjölmargir grunnskólakennarar starfi í öðrum greinum og lítil von sé til þess að þeir snúi til baka nema launakjör batni. Þorgerður segir töluvert um undanþágur til þeirra sem fá menntun sína ekki metna með réttu.

Samkvæmt ársskýrslu undanþágunefndar grunnskóla skólaárið 2017 til 2018 sem kom út nýverið voru 434 umsóknir um undanþágu til þess að kenna í grunnskólum án tilskilinna leyfa teknar til afgreiðslu nefndarinnar. 383 umsóknir voru samþykktar en 51 synjað. Aukning á samþykktum undanþágubeiðnum var 40,8% frá fyrra skólaári. Flestar undanþágubeiðnir voru samþykktar á árunum fyrir hrun þ.e.a.s. á skólaárunum 2007 til 2008 alls 506 og 477 undanþágur samþykktar skólaárið 2008 til 2009. 185 beiðnir 2017 til 2018 sneru að almennri kennslu.

Aðsókn í kennaranám minna

Þorgerður segir að eftir skólaárið 2008 til 2009 hafi undanþágubeiðnum farið fækkandi og verið ásættanlegar en nú sé það ekki lengur. Þorgerður segir að á bak við undanþágubeiðnirnar séu einstaklingar með mismunandi hæfni og reynslu. Hún segir margar vörður á leiðinni áður en undanþágur séu veittar og allt sé gert til þess að ráða réttindakennara í stöður í stað þess að lausráða einstaklinga til árs í senn.

„Þar sem starfsheiti grunnskólakennara er lögverndað geta þeir einir sem uppfyllt hafa námskröfur sem gerðar eru til grunnskólakennara talist slíkir. Framhaldsskólakennarar sem hafa ekki eins margar einingar í uppeldis- og kennslufræðum í námskrá sinni en eru með fleiri einingar í öðrum fögum uppfylla ekki skilyrði til að kallast grunnskólakennarar og það sama á við um leikskólakennara þrátt fyrir að þeir taki 150 einingar í uppeldis- og kennslufræði í sínu námi,“ segir Þorgerður og bendir á að áður en lögum um grunnskóla var breytt hafi hluti kennara verið með tvöfalt leyfisbréf og haft leyfi til þess að kenna á tveimur skólastigum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert