Skýrsla IE verður jólalesning Þórdísar Lóu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs í Ráðhúsinu í dag.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ekki finnst mér það nú,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs spurð út í það hvort einhver ætti að axla pólitíska ábyrgð vegna braggamálsins svokallaða, sem fjallað er um í nýrri skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Hún leggur áherslu á að það komi fram að borgarráð, innkauparáð og borgarstjóri hafi ekki verið upplýst um framgang málsins. „Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál. Við viljum sem stjórnmálamenn taka ábyrgð á þeim ákvörðunum sem við komum að en þegar við komum ekki að þeim getum við illa borið ábyrgð á þeim,“ segir Þórdís Lóa.

Þórdís Lóa, ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur frá Sjálfstæðisflokki, mun ráðast í það verkefni á næstunni að móta tillögur að viðbrögðum við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

„Innri endurskoðun leggur það til að við endurskoðum aðeins umhverfið í kringum skyldur og ábyrgð starfsmanna sérstaklega þegar það kemur að fjármunum og framfylgd verkefna á þessum skala,“ segir Þórdís Lóa.

Hún segist ekki geta sagt til um hvenær tillögur þeirra þriggja muni liggja fyrir, en vinnan mun hefjast eftir áramót.

„Jólalesningin er greinilega þessi 130 blaðsíðna skýrsla og við förum bara í það beint í janúar, þetta verður bara tekið beint í janúar, við viljum ekkert vera að drolla neitt við þetta,“ segir Þórdís Lóa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert