Innihald og hjartalag skiptir öllu

Mbl.is óskar landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakkar um leið samfylgdina á árinu sem er að líða. Í tilefni hátíðarinnar var Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, fenginn til að skrifa jólahugvekju. 

„Markaðsáreiti og auglýsingar hafa margfaldast á Íslandi á síðustu tíu árum. Í þessum auglýsingum er verið að færa okkur skilaboð, segja okkur sögur.

Helgisögur markaðarins vaða grunnt í andlegum skilningi og grundvallast á sagnastefinu að við séum aldrei nóg. Okkur vanti alltaf nokkrar vörur í viðbót til að geta lifað mannsæmandi lífi:  Hraðari tengingu, fleiri gígabæt, djúpvirkari hrukkuvörn eða dýrari skóbúnað.

„Verið óhrædd“ segja áhrifavaldar neyslunnar, (samfélagsmiðlastjörnurnar sem fyrirtækin greiða fyrir að kynna vörur), „því sjá ég boða ykkur mikinn fögnuð:  Glansvöruna, sem veittist mér og öllum lýðnum eða að minnsta kosti þeim sem hafa efni á“

Markaðurinn sáir ótta. Dæmandi englar markaðarins boða þér að þú eigir ekki nóg, þú sért ekki nóg, þurfir meira, meiri neyslu og nýjungar, merki sem manngreina!

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju.
Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju. Ljósmynd/Aðsend

Þetta sjáum við öll sem viljum sjá. Það selur enginn hrukkukrem nema búið sé að planta þeirri hugmynd að það sé slæmt að eldast, það greiðir enginn tugþúsundir aukreitis fyrir tískuflík nema búið sé að sannfæra um að án hennar sé lífið ekki nægjanlegt.

Þess vegna er ég þakklátur fyrir jólasögu Biblíunnar. Því sama hvaða lífsskoðun við aðhyllumst þá eru andleg verðmæti í helgitexta Biblíunnar og barnsfæðingunni í Betlehem. Sagan er núllstilling. Mótefni neyslunnar.

Getur verið að við þurfum reglulega að minna okkur á að hið guðlega spyr ekki um menntun eða metorðastiga heldur brýst fram og birtist fyrst hinum lægst settu; fjárhirðum, jaðarsettum undirmálsmönnum. Hið guðlega kemur ekki til að sá ótta eða skapa gerviþörf. Englarnir segja einfaldlega: „Verið óhrædd, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur“.

Lesandi góður. Friðarhöfðinginn og frelsarinn kom ekki í heiminn í allsnægtum eða með valdi. Sagan af frumstæðri fæðingu í fjárhúsi undirstrikar þau andlegu sannindi að umbúðir eða útlit skipta engu, en innihald og hjartalag öllu. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Áhrifavaldurinn Jesús Kristur kom ekki til að dæma þennan heim heldur til að frelsa hann.

Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert