Öll börn alist upp í ljósi kærleikans

Jól á Skólavörðustíg.
Jól á Skólavörðustíg. mbl.is/Árni Sæberg

Agnes M Sigurðardóttir, biskup Íslands, minntist við aftansöng í kvöld á tónleika sem hún sótti á aðventunni þar sem jólalög frá ýmsum löndum voru sungin.

„Ég veitti ekki athygli fólkinu sem sat fyrir framan mig fyrr en í síðasta laginu en þá fór kórinn aftast í kirkjuna og gekk fram um leið og þau sungu Heims um ból. Þá snéri fólkið sér aftur til að sjá kórinn og úr andlitum þeirra skein gleði því þessir erlendu ferðamenn þekktu sálminn góða þó ekki hafi þau skilið textann. Heims um ból vekur með okkur góðar tilfinningar jafnvel þó hann sé sunginn á tungumáli sem við skiljum ekki,“ sagði Agnes.

Hún sagði að því miður búi öll börn ekki við góðar aðstæður í heiminum. Ytri aðstæður séu misjafnar en öll börn ættu að alast upp í ljósi kærleikans.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

„Það uppeldi er ekki mælt á veraldlega vísu heldur ræður þar hjartalagið sem er ókeypis. Öll börn ættu að eiga greiðan aðgang að fagaðilum sem hjálpa foreldrunum að finna leiðir til lausnar ef eitthvað má betur fara eða þörf er á úrræðum sem auðvelda líf fjölskyldunnar. Tvö ár í lífi barns er langur tími. Það er allt of langur biðtími fyrir barn og foreldra þegar eitthvað bjátar á.“

Hún sagði jafnframt sárt til þess að vita að mörg börn hér á landi séu haldin kvíða og vanlíðan.

„Trump, Pútin, May eða Merkel eiga ekki síðasta orðið og draga ekki huga okkar til sinna heimshluta núna. Heldur er það bærinn Betlehem, brauðhúsið, sem er miðja alheimsins á jólum. Þessi litli bær á Vesturbakkanum sem þúsundir sækja heim ár hvert til að líta á fæðingarstað frelsarans. Jólin safna okkur saman þangað. Vald þeirra sem ráða og stjórna er ekki það mesta eða sterkasta heldur er hið minnsta og viðkvæmasta, lítið barn, sterkara en allt. Sá sigrar sem elskar mest. Hver hefur elskað meira en Guð, sem sendi son sinn Jesú Krist í heiminn til þess að enginn myndi deyja að eilífu?

Þess vegna óskum við hvert öðru gleðilegra jóla og þess vegna getum við átt gleðileg jól. Gleðileg jól, í Jesú nafni. Amen.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert