„Getum öll lagt okkar af mörkum“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti sitt annað áramótaávarp í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti sitt annað áramótaávarp í kvöld. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

„Fullveldissagan er saga framfara, raunar er allt svo gjörbreytt að stundum er eins og 19. öldin hafi aldrei verið. En íslenska samfélagið hefur þó aldrei aðeins snúist um efnahagslega velferð eingöngu heldur almenna velferð og jöfnuð. Ísland trónir nú á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld og velferð. Samfélagið hefur breyst, uppruni landsmanna er nú fjölbreyttari en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bakgrunn. Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið hefur verið aflgjafi til að ná öllum þessum árangri.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra meðal annars í áramótaávarpi sínu sem hún flutti í Ríkisútvarpinu í kvöld. Vísaði hún þar til þeirra erfiðleika sem Íslendingar hafi glímt við í lok 19. aldar í kjölfar náttúruhamfara sem urðu til þess að fjöldi manns yfirgaf Ísland og hélt vestur um haf til Kanada og Bandaríkjanna. Þjóðflutningarnir minntu á það hversu erfitt gat verið að búa á Íslandi á þeim tíma. Ræddi hún í ávarpi sínu um þann árangur sem náðst hefði síðan og ennfremur þær áskoranir sem framundan væru.

Hagkerfið hvíli á fjölbreyttum stoðum

Þannig ræddi Katrín um stöðuna á vinnumarkaði og sagði að stjórnvöld myndu leggja sitt að mörkum til þess að tryggja kjarabætur fyrir almenning. Ennfremur ræddi Katrín um mikilvægi þess að standa vörð um náttúruna samhliða örum vexti ferðaþjónustunnar og ennfremur mikilvægi þess að tryggja að hagkerfið hvíldi á fjölbreyttum stoðum. Sviptingar í flugrekstri að undanförnu minntu á það.

„Hið mikla álag þessarar nýju útflutningsgreinar á innviði og náttúru minnir líka á að hröð uppbygging ferðaþjónustu er vandaverk sem krefst virðingar fyrir náttúru og samfélagi. Hingað kemur fólk til að berja einstaka náttúru augum. Hluti af sjálfbærri ferðaþjónustu er að vernda þessa sömu náttúru fyrir utan þá skyldu sem á okkur hvílir að vernda náttúruna og víðernin þeirra fyrir komandi kynslóðir.“

Dýrmætasta eign hvers samfélags

Forsætisráðherra ræddi einnig um mikilvægi þess að hlúa að þakkingarleitinni, styðja við íslenskuna sem og að styðja við rannsóknir og menntun. Loftlagsbreytingar voru Katrínu einnig hugleiknar og mikilvægi þess að bregðast við þeim. Hún lauk ávarpi sínu á því að rifja upp fund sinn með kongóska lækninum Denis Mukwege sem helgað hefði líf sitt því að hjálpa konum sem hefur verið nauðgað og þær limlestar í stríðsátökum í Kongó og hlotið Friðarverðlaun Nóbels fyrir.

„Það er svona fólk, fólk sem lætur sig varða um mennskuna og hag annarra, sem er ekki aðeins dýrmætasta eign hvers samfélags heldur heimsins alls. Við verðum ekki öll friðarverðlaunahafar Nóbels en við, sem eigum því láni að fagna að búa í einu friðsælasta landi heims, getum öll lagt okkar af mörkum, munað  hvert eftir öðru, hlúð hvert að öðru og lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að gera samfélagið aðeins betra, heiminn aðeins fallegri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert