Þjóðarpúls: Fylgi Miðflokksins helmingast

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. Fylgi flokksins hefur helmingast frá …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. Fylgi flokksins hefur helmingast frá því að Klausturmálið kom upp í lok nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgi Miðflokksins fellur um nær sex prósentustig í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og mælist flokkurinn nú með 5,7% fylgi. Á móti eykst fylgi Framsóknarflokks um nær fjögur prósentustig og segja 11,4% að þeir myndu kjósa flokkinn ef gengið væri til kosninga í dag.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 22,7% fylgi og þar á eftir kemur Samfylkingin með 18,4% fylgi. Þar á eftir koma Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Viðreisn og mælist fylgi þessara flokka á bilinu 11,6-10,5 prósentustig.

Miðflokkurinn mælist svo með 5,7%, litlu meira en Flokkur fólksins, sem mælist með 5,3%. Aðrir flokkar og framboð mælast svo með samanlagt 3,7% og tekið er fram í frétt RÚV að fylgi Sósíalistaflokks Íslands hafi aukist um rúmlega tvö prósentustig á milli mánaða.

Yfir 12% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rúmlega 9% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp.

Fylgi við ríkisstjórnina minnkaði um eitt prósentustig á milli mánaða, en 44,8% segjast styðja ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Könnunin var gerð dagana 3. desember 2018 til 1. janúar 2019. Heildarúrtaksstærð var 4.899 og þátttökuhlutfall var 58,0%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,8-1,7%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert