Telur aðra hafa valdið dauða Sanitu

Khaled Cairo var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir morð og …
Khaled Cairo var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir morð og dæmdur í 16 ára fangelsi. mbl.is/​Hari

„Hvar er hann? Hver er hann? Hann er horfinn,“ sagði Khaled Cairo fyrir Landsrétti í morgun þegar farið var yfir framburð hans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann var dæmdur í 16 ára fangelsi 18. april á síðasta ári fyrir að myrða Sanitu Brauna í íbúð við Hagamel í Reykjavík í september 2017, en Cairo áfrýjaði fangelsisdóminum til Landsréttar.

Vísaði Cairo þar til svarts karlmanns sem kom inn í íbúðina skömmu áður en hann varð Sanitu að bana. Sagði Cairo að þessi maður gæti allt eins hafa valdið dauða hennar. Þá vildi hann einnig meina að Sanita hefði hugsanlega látist eftir að hún var flutt á sjúkrahús vegna mistaka heilbrigðisstarfsmanna, enda vildi hann meina að hún hefði þá enn verið á lífi, eða vegna piparúða sem lögreglan notaði á hann og gæti hafa lent einnig á henni.

Fram kom í dómi héraðsdóms að hafið væri yfir allan vafa að Cairo hefði veist að Sanitu Brauna með því að slá hana ítrekað í höfuðið með bæði flösku og slökkvitæki. Frammi á gangi íbúðarinnar hefði Cairo þrengt kröftuglega með höndunum að hálsi hennar þar sem hún lá á gólfinu og að lokum slegið Sanitu með slökkvitæki í höfuðið aftanvert.

Missti algerlega stjórn á sér

Cairo sagðist aðeins muna eftir hluta af atburðarásinni. Fram kom fyrir dómi að Cairo hefði komið á heimili Sanitu, verið hleypt inn í íbúðina og farið inn í herbergi hennar. Þar hafi hann séð að hún hefði fengið tölvuskilaboð frá öðrum karlmönnum. Hann hafi verið hissa á að hún væri í sambandi við aðra karla. Hún hefði sagt sé að hann væri sá eini.

Einnig kom fram að Cairo hafi viljað gista hjá Sanitu um nóttina þar sem strætisvagnar hafi verið hættir að ganga. Hún hafi ekki viljað það þar sem hún ætti von á öðrum karlmanni. Fyrir dómi sagðist Cairo ekki hafa trúað því fyrr en svarti maðurinn hafi birst í dyragættinni. Fram kom að hann hefði verið með flösku í hendinni enda verið að drekka.

Cairo sagðist hafa orðið reiður og ætlað að kasta flöskunni í aðkomumanninn en hún hafi lent í Sanitu í staðinn. Hann myndi síðan eftir sér á gangi íbúðarinnar með slökkvitæki í höndunum sem hann hafi sveiflað. Hins vegar myndi hann ekki hvernig slökkvitækið hafi komist í hendur hans. Hann hafi verið mjög reiður og algerlega misst stjórn á sér.

Það næsta sem Cairo sagðist muna eftir var að einhver hafi opnað dyr íbúðarinnar og hann sagt viðkomandi að loka dyrunum. Síðan myndi hann eftir því að lögreglan kom á vettvang og sprautaði einhverju á hann sem var piparúði. Sagðist hann ekki telja að hann hefði valdið dauða Sanitu. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa tekið Sanitu hálstaki.

Ást, afbrýðisemi, reiði og hungur

Cairo sagðist aðspurður hafa farið heim til Sanitu vegna þess að hann hafi vilja hitta hana áður en hún færi til Lettlands að hitta ættingja sína sem hún hafi sagt að hana langaði að gera. Hann hafi verið búinn að biðja hana að giftast sér. Cairo sagði að tilfinningar eins og ást, afbrýðisemi, reiði og hungur hafi farið af stað þegar hann hefði séð svarta karlmanninn hjá Sanitu.

Tveir lögreglumenn sem komu á vettvang á sínum tíma komu fyrir dóminn og staðfestu að hafa séð Cairo blóðugan yfir Sanitu, skipað honum að leggjast niður og beitt piparúða á hann þegar hann hafi ekki orðið við því. Lögreglumenn hafi ekki fundið lífsmark með Sanitu en annar þeirra sagðist hafa heyrt á sjúkraflutningamönnunum að veikt lífsmark hafi verið um að ræða.

Geðlæknir sem skoðaði Cairo sagði aðspurður ekkert hafa bent til þess að hann væri ekki sakhæfur. Ekkert hafi bent til þess að hann væri með geðrof þrátt fyrir óvenjulega hegðun eftir að hafa verið handtekinn þar sem hann nálgaðist málið af léttúð. Sagði læknirinn að hann teldi þarna um ákveðin varnarviðbrögð að ræða sem væru þekkt við aðstæður sem þessar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert