Héldu mótmælum áfram við Hlemm

Mótmæli hælisleitenda og flóttamanna héldu áfram við lögreglustöðina við Hverfisgötu …
Mótmæli hælisleitenda og flóttamanna héldu áfram við lögreglustöðina við Hverfisgötu í kvöld. mbl.is

Mótmælendur sem lögregla hafði afskipti af á Austurvelli í dag færðu sig að lögreglustöðinni við Hverfisgötu í kvöld og mótmæltu þar handtöku tveggja úr hópnum og kröfðust þess að þau yrðu leyst úr haldi.

Búið er að sleppa öðrum mótmælandanum úr haldi, íslenskri konu, samkvæmt frétt Vísis af málinu. Hinn sem var handtekinn var erlendur karlmaður.

Tinna Lind Hallsdóttir, sem var á Austurvelli í dag að sýna hælisleitendum og flóttafólki á Íslandi samstöðu, segir í samtali við mbl.is að henni hafi þótt aðfarir lögreglu á Austurvelli, þar sem piparúða var beitt gegn mótmælendum, harkalegar. 

„Ég tel ekki að hafi verið þörf á því,“ segir Tinna.

Hún segir rangt að mótmælendur hafi verið að hlaða í bálköst, eins og lögregla taldi og sagði aðgerðir sínar í dag hafa byggst á. Fólk hafi einfaldlega verið að koma með pappakassa niður á Austurvöll til þess að búa til fleiri skilti með slagorðum.

„Ég hef ekkert á móti lögreglunni en þetta kom mér þannig fyrir sjónir að það hafi ekki verið nein ástæða fyrir þessu,“ segir Tinna Lind.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert