Upplýsa um aðbúnað hælisleitenda

Frá búsetuúrræði ÚTL á Ásbrú. Þar dvelja 90 karlmenn, tveir …
Frá búsetuúrræði ÚTL á Ásbrú. Þar dvelja 90 karlmenn, tveir saman í herbergi. Ljósmynd/Útlendingastofnun

Útlendingastofnun (ÚTL) birtir á vef sínum í dag ýmsar upplýsingar um þá þjónustu sem umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi stendur til boða, en nokkur umræða hefur verið um þau mál í samfélaginu undanfarna daga vegna yfirstandandi mótmæla hælisleitenda á Austurvelli, sem meðal annars hafa gist þar síðastliðnar tvær nætur og sagt það betra að liggja úti í kuldanum en að dvelja í búsetuúrræði ÚTL að Ásbrú í Reykjanesbæ.

Mótmælendur hafa sett fram fimm kröfur, sem þeir vilja fá að ræða við ráðamenn þjóðarinnar og Útlendingastofnun. Þeir fara fram á að brott­vís­un­um hæl­is­leit­enda verði hætt, að all­ir hæl­is­leit­end­ur fái efn­is­meðferð hér á landi og að Dyfl­inn­ar­reglu­gerðin sé ekki notuð, að hæl­is­leit­end­ur fái rétt til að vinna og njóti jafns aðgangs að heil­brigðisþjón­ustu, auk þess sem dval­arstað hæl­is­leit­anda á Ásbrú verði lokað.

Frá mótmælum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Austurvelli á þriðjudag. …
Frá mótmælum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Austurvelli á þriðjudag. Þau standa enn yfir. mbl.is/Eggert

Á vef ÚTL kemur fram að búsetuúrræði stofnunarinnar að Ásbrú hafi verið tekið í notkun um síðastliðin áramót og að þar dvelji nú um 90 karlmenn í tveggja manna herbergjum. ÚTL úthlutar íbúum í úrræðinu strætókortum sem gilda í innanbæjarsamgöngur í Reykjanesbæ og lætur íbúum jafnframt í té strætómiða til að sinna erindum varðandi umsókn sína á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er til að mæta í viðtöl hjá ÚTL, kærunefnd útlendingamála eða talsmönnum Rauða krossins, og til að nýta þjónustu sérfræðilækna og sálfræðinga. Myndir af úrræðinu má sjá hér að neðan.

Enginn er neyddur til þess að dvelja á Ásbrú eða í öðrum búsetuúrræðum ÚTL eða sveitarfélaga sem stofnunin hefur gert þjónustusamning við.

Þeir sem ekki geta séð um eigin framfærslu á meðan mál þeirra eru til meðferðar hérlendis fá hins vegar ekki að ráða því sjálfir hvar þeir búa, heldur er það ÚTL sem ákveður í hvaða búsetuúrræði eða hjá hvaða sveitarfélagi umsækjendur dvelja „og er þá tekið mið af þörfum þeirra, stöðu máls og getu sveitarfélags til að veita þá þjónustu sem þeir þurfa“.

Frá búsetuúrræði ÚTL á Ásbrú. Þar dvelja 90 karlmenn, tveir …
Frá búsetuúrræði ÚTL á Ásbrú. Þar dvelja 90 karlmenn, tveir saman í herbergi. Ljósmynd/Útlendingastofnun

Varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustu hafa umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þeim lyfjum sem þeim eru nauðsynleg skv. læknisráði og að höfðu samráði við trúnaðarlækni stofnunarinnar. ÚTL stendur straum af slíkum kostnaði geti umsækjandi ekki staðið undir honum sjálfur. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga jafnframt rétt á bráðaþjónustu og greiðist kostnaður vegna hennar af ÚTL.

Varðandi réttinn til að vinna mega umsækjendur um alþjóðlega vernd vinna hér á landi á meðan umsókn þeirra til meðferðar, ef þeir fá útgefið svokallað bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi. Fram kemur á vef ÚTL að leyfið sé veitt tímabundið þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í máli umsækjenda eða þar til „synjun kemur til framkvæmda“.

Þeir umsækjendur sem fá útgefið þetta leyfi þurfa að verða sér sjálfir úti um húsnæði og eiga ekki lengur rétt á framfærslu eða annarri þjónustu frá ÚTL.

Nánar er fjallað um málið á vef ÚTL, sem áður segir.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert