„Málflutningur Seðlabankans ekki boðlegur“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir málflutning Seðlabankans ekki vera …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir málflutning Seðlabankans ekki vera boðlegan. mbl.is/Eggert

Málflutningur Seðlabankans varðandi kaupmáttarákvæði nýundirritaðra kjarasamninga er ekki boðlegt. Þetta sagði Ragnar Þór Ingvarsson, formaður VR, í þættinum Kastljósi á RÚV í kvöld. „Seðlabankinn hefur alltaf gert það sem honum sýnist,“ sagði Ragnar Þór og kvað verkalýðshreyfinguna líka vera sjálfstæða. „Við setjum þessi forsenduákvæði inn gegn okkar viðsemjendum,“ og það  séu Samtök atvinnulífsins.

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að end­ur­skoðun­ar­á­kvæði í kjara­samn­ing­um um vaxta­stig væri óheppi­legt og að hluta byggt á mis­skiln­ingi. 

Ragnar Þór sagði Seðlabankann hins vegar ítrekað hafa stigið fram og stillt verkalýðshreyfingunni upp við vegg. „Við erum að svara því kalli,“ sagði hann og benti á að Seðlabankinn hafi ítrekað hækkað vexti þegar launþegar semji um launahækkun. Þannig hafi bankinn til að mynda hækkað vexti í þrígang 2015 og þar með tekið næstum allan kaupmátt sem náðst hafði með kjarasamningum.

„Svo kemur grátkór fram um að við séum að stilla þessum og hinum upp við vegg,“ sagði Ragnar Þór og kvað verkalýðshreyfinguna ekki treysta Seðlabankanum.

Spurður hvað stýrivextir þurfi að lækka mikið svo ekki verði látið reyna á kaupmáttarákvæðið kvaðst Ragnar Þór ekki ætla að nefna neinar tölur, en sagði vextina þó þurfa að lækka „umtalsvert“ svo samningar haldi. Spurður hvort 1% lækkun dugi, sagði hann: „Við getum nefnt 1%, en þetta er umtalsvert sem við viljum fá á móti. Nú ef það gerist ekki þá þurfum við að fara aftur að teikniborðinu og skerpa á okkar kaupkröfu.“

Verið sé að reyna að ná fram lægri kostnaði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin.

Sagði Ragnar Þór verkalýðshreyfinguna ekki vera að stilla stjórnvöldum upp við vegg með því að gera kröfu um að þau efni sín loforð. „Alveg eins og við getum sagt við Seðlabankann, sem taldi okkur trú um að hér væri hægt að lækka vexti með því að hafa ákveðnar forsendur í efnahagslífinu og við myndum  koma fram með hóflegri hætti en við hefðum gert áður. Við reyndum að fara þá leið og þeir koma nú fram hver á eftir öðrum og virðast komnir í hótanagírinn aftur og þá verður það bara að vera þannig.“

Ekki sé verið að stilla neinum upp við vegg, hvorki stjórnvöldum né öðrum. „Við gerum samning og gerum þá kröfu til okkar viðsemjenda að hann sé efndur og þetta eru forsendurnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert