Tvö vindorkuver í matsferli

Vindorkuver.
Vindorkuver.

Auglýstar hafa verið tillögur að áætlunum vegna mats á umhverfisáhrifum tveggja allt að 130 megavatta vindorkuvera í Dalabyggð og Reykhólasveit. Bæði áformin hafa á bak við sig öfluga vindmylluframleiðendur, annars vegar Siemens og hins vegar Vestas.

Fyrirtækið Storm Orka hyggst reisa og reka vindorkugarð í landi Hróðnýjarstaða við Hvammsfjörð með 80-130 MW af uppsettu afli. Að baki fyrirtækinu standa bræðurnir Magnús og Sigurður Jóhannessynir, eigendur jarðarinnar, og njóta þeir stuðnings vindmylluframleiðandans Siemens Gamesa Renewable Energy og fleiri ráðgjafa.

Gert er ráð fyrir 85 MW vindorkugarði í fyrsta áfanga. Ekki er talið fært að gefa upp endanlegan fjölda vindrafstöðva. Ef notaðar verða vindmyllur sem framleiða tæplega 3,5 MW þarf um 24 myllur til að framleiða það afl. Þær eru með 114 metra háum turni, auk spaða þannig að hæsti punktur spaða í efstu stöðu yrði í 180 metra hæð. Hins vegar er bent á það í tillögu að matsáætlun að tækninni í framleiðslu vindrafstöðva fleygi stöðugt fram þannig að búast megi við að þegar kemur að byggingu garðsins dugi 18 myllur til að framleiða 85 MW.

EM Orka áformar að reisa allt að 130 MW vindorkugarð í Reykhólahreppi í landi Garpsdals við Gilsfjörð. Fyrirtækið er í eigu EMP Holdings sem er í sameiginlegri eigu EMP IN en það er skráð á Írlandi og Vestas sem er einn stærsti vindmylluframleiðandi heims. Áformað er að vindmyllurnar verði á Garpsdalsfjalli, hátt yfir sjó. Þarf að styrkja veg sem þangað liggur um Garpsdal, um 6,5 km leið, til að koma vindmyllunum á sinn stað. Gert er ráð fyrir að þeim verði skipað upp á Grundartanga. Til að ná 130 MW afkastagetu þarf allt að 35 vindmyllur og hver þeirra yrði allt að 150 metrar á hæð, að meðtöldum spöðum í hæstu stöðu.

Bæði fyrirtækin vinna að undirbúningsrannsóknum, meðal annars á vindi. Í tillögum beggja er greint frá því hvernig staðið verður að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, meðal annars á hljóðvist og ásýnd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert