Oddný skaut fast á Katrínu

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, dró hún í efa heilindi …
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, dró hún í efa heilindi forsætisráðherra sem vinstrimanns. mbl.is/Eggert

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, skaut fast á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra í ræðu sinni á Alþingi í kvöld, en eldhúsdagsumræður standa nú yfir. Dró hún í efa heilindi forsætisráðherra sem vinstrimanns.

Sagði Oddný holan hljóm í málflutningi Katrínu um að vinstriflokkar í Evrópu ættu að sameinast um róttækar lausnir og að marka þurfi djarfa framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.

Sakaði hún forsætisráðherra um að segja eitt í útlöndum en gera annað á heimavelli með því að leiða „ríkisstjórn gömlu valda og íhaldsflokkanna og styður fjármála- og efnahagsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórn sem vill hvorki leggja á sanngjörn auðlindagjöld né láta auðmenn greiða sinn réttláta skerf til velferðarinnar. Ríkisstjórn stöðnunar og óréttlætis.“

Áhersla á stöðu barna

Samfylkingin gerði málefni barna og stöðu þeirra að forgangsatriði á yfirstandandi þingi, að sögn þingflokksformannsins, og hafi áherslan verið á börn sem þurfa að þola vanrækslu, heimilisofbeldi og kynferðisbrot.

„Því miður gætir sinnuleysis stjórnvalda um málefni barna víðar því skortur er á skýrri leiðsögn, skilvirku skipulagi og heilstæðri stefnu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga,“ sagði Oddný.

Minni efnisleg lífsgæði, meiri ást

Þá gerði Oddný loftslagsmálin að sérstöku umfjöllunarefni í ræðu sinni og vitnaði í þakkaræðu Benedikts Erlingssonar, þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs fyrir Kona fer í stríð.

Vísaði hún til þess að stjórnmálamenn verði að hafa hugrekki til þess að boða minni efnisleg lífsgæði, en í staðinn bjóða meiri menningu, bókmenntir, tónlist, skemmtun, heilbrigðari lífstíl, langlífi, aukna samveru og ást.

Ekki við þingið að sakast

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, varð einnig að skotskífu Oddnýjar er hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki kynnt nýja fjármálastefnu og breyttri fjármálaáætlun í takti við breyttar efnahagshorfur.

„Ekki er við þingið að sakast að fjármálaráðherrann hefur ekki kynnt nýja stefnu heldur vandræðagang ríkisstjórnarinnar sem fékk stjórnarmeirihlutann til að samþykkja algjörlega óraunhæfa fjármálastefnu fyrir rúmu ári síðan,“ sagði hún og vísaði til meints forsendubrests sem hefur orðið vegna óvissu í efnahagsmálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert