Vespa á 50 km hraða er lífshættuleg

Litlu munaði að ökumaður vespunnar keyrði Axel niður þegar hann …
Litlu munaði að ökumaður vespunnar keyrði Axel niður þegar hann kom þjótandi fyrir horn. Skjáskot úr myndbandi af atvikinu

Númeralaust vélknúið ökutæki á 50 kílómetra hraða á gangstétt, á annað hundrað kíló að þyngd.

Það hljómar eins og úr dagbók lögreglu en er það ekki heldur lýsing Axels Kaaber á því þegar vespa þaut á ógnarhraða rétt fram hjá honum við gatnamót Hamrahlíðar og Kringlumýrarbrautar og hann rétt náði að sveigja frá.

Vespan var á gangstéttinni og Axel líka þannig að farartækin fóru ískyggilega nærri hvort öðru þegar þau mættust á horninu. Það eru ekki skýrar reglur um það hvar vespur mega keyra eða á hvaða hraða. En „150-200 kg stykki á 50-60 kílómetra hraða er lífshættulegt,“ segir Axel.

Í samtali við mbl.is bendir Axel á það að verndaður hjólastígur í Hamrahlíð hefði eðli máls samkvæmt afstýrt mestri hættunni, þar sem hann hefði dregið hann lengra frá horninu. Á sama hátt hefði verið æskilegra ef ökumaður vespunnar hefði notað þann hjólastíg sem þegar er á Kringlumýrarbraut.

Axel Kaaber hjólar fram og til baka í vinnuna á …
Axel Kaaber hjólar fram og til baka í vinnuna á hverjum degi. Í gær skall hurð nærri hælum. Ljósmynd/Aðsend

Á hjólastígslausum vegum eru hjólreiðamenn samt á milli steins og sleggju. „Ég hef stundum hjólað Hamrahlíðina á götunni og þá er stundum flautað á mig. Þá færi ég mig upp á gangstétt, þar sem ég má vera, en þá skapar það ákveðna hættu, því það færir mann nær ökutækjum sem koma inn á götuna,“ segir Axel.

Lausnin lægi þá í hjólastíg um Hamrahlíðina en ekki er vitað til þess að slíkt sé á teikniborðinu.

Lítið svigrúm til að sveigja frá

Axel og ökumaður vespunnar voru báðir á gangstéttinni, sem veldur því að þeir mætast hornrétt án mikils svigrúms til að sveigja frá. Ef Axel hefði verið úti á götu eða á hjólastíg örlitlu fjær horninu hefðu aðstæður verið nokkru öruggari.

Hið sama gildir um fjarlægð ökumanns vespunnar frá horninu. „Hann hefði í fyrsta lagi átt að vera á hjólastígnum ef hann ætlar að vera einhvers staðar á 60 kílómetra hraða,“ segir Axel, sem telur að vel sé mögulegt fyrir hjólreiðamenn og vespur að deila hjólastígum, í það minnsta rafmagnsvespur.

Vespur komast upp í 50-60 kílómetra hraða ef miðað er við 50 rúmsentimetra vespur, eins og Axel gerir ráð fyrir að hafi verið tilfellið í þessu máli. Hjólreiðamenn fara sjaldnast svo geyst en geta verið í ágætu samlyndi við hraðskreiðari tæki ef reglum er fylgt. Axel segir að reglurnar um vespur séu ekki skýrar og oft sé óljóst hvar þeim ber að fara leiðar sinnar, á götu eða gangstétt.

Betur má ef duga skal

Axel var á leið heim úr vinnu þegar þetta atvikaðist. Hann hjólar úr Hvassaleiti, þar sem hann býr, út á Granda, þar sem hann vinnur sem arkitekt, og aftur til baka. Þetta gerir hann dag hvern árið um kring.

Hann segir „fyrirtaksskref hafa verið tekin á síðustu árum í uppbyggingu hjólastíga“ en betur megi gera ef duga skal. „Það sem mætti bæta stórlega er að auka verndaða hjólastíga inni í hverfum og hætta að einblína aðeins á hjólaleiðir meðfram stofnbrautum og sjónum,“ segir Axel.

Góðum köflum af hjólastígum hafi verið komið upp en inn á milli séu þeir endaslepptir. Þeir verði að halda áfram yfir gatnamót.

Hjólastígur meðfram Ægisíðu.
Hjólastígur meðfram Ægisíðu. mbl.is/​Hari

Og spurður um hjálmaskylduna, sem umhverfis- og samgöngunefnd lagði til í áliti sínu að yrði látin gilda fyrir alla yngri en 18 ára, segist Axel vera á móti henni. „Ég held að það sé sérstaklega letjandi fyrir ungmenni og fólk undir 18 ára aldri að vera skylduð til að vera með hjálm þegar þau hjóla. Það gæti haft neikvæð áhrif á hjólreiðar, þar sem færri myndu hjóla og meira öryggi sé í fjöldanum en hjálmanotkun,“ segir hann.

Þess skal getið að bæði Axel og ökumaður vespunnar voru með hjálm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert