Flugust fyrst á og keyrðu svo á brott

Miklabraut ekin frá vestur til austurs. Það var nákvæmlega á …
Miklabraut ekin frá vestur til austurs. Það var nákvæmlega á þessum stað, hinum rauðmerkta, sem bifreiðarnar höfðu verið stöðvaðar og mennirnir stigu út til að greiða úr deilunum sín á milli. Hvort það hafi tekist liggur ekki fyrir en áfanga hlýtur að hafa verið náð. Mynd annars úr safni. mbl.is/Ómar

Mennirnir tveir, sem höfðu fyrir því að að stíga út úr bifreiðum sínum við gatnamót Miklubraut og Kringlumýrarbrautar upp úr klukkan 12 í hádeginu í dag til að lemja hvor annan um stund, stigu svo aftur inn í bifreiðar sínar hvor um sig og keyrðu á brott.

Vitni að atburðinum, en þau voru nokkur í kyrrstæðum bílum í kring, tóku niður skráningarnúmerin á bifreiðum mannanna og sendu þau lögreglu. Lögreglumönnum á vakt, akandi eða á mótorhjólum, var gert viðvart og þeir sem höfðu svigrúm til þess munu hafa reynt að nálgast vettvang eða fara í humátt á eftir áflogagikkjunum. Ekki hefur þó tekist fram að þessu að hafa upp á þeim.

Það getur augljóslega skapað hættu að stöðva bíl á miðri …
Það getur augljóslega skapað hættu að stöðva bíl á miðri götu. Í þessu tilviki virtist það þó fyrst og fremst vekja furðu. mbl.is/​Hari

Ekki fer sögum af því hvort mennirnir hafi mælt sér mót annars staðar til þess að taka upp þráðinn þar sem þeir slepptu honum en lögreglan fékk boð um í hvaða átt þeir hafi stefnt að loknum áflogunum á hraðbrautinni. Því síður liggja fyrir upplýsingar um hver aðdragandinn var, það er, hvort þetta hafi verið umferðardeilur af hefðbundnari toga (e. roadrage) eða hvort persónulegar ástæður hafi knúið illdeilurnar áfram.

Þegar sá sem þetta skráir átti leið hjá vettvangi á fullri ferð í eigin bíl úr hinni áttinni blasti við honum röð kyrrstæðra bíla og tveir karlmenn sem tókust á af hörku á miðri götu. Vegfarendur göptu yfir aðförunum en vissu að líkindum vart hvað til bragðs átti að taka, nema náttúrulega að gera löggæslu viðvart. Annar aðilanna að slagsmálunum var klæddur hvítum hlýrabol, virtist vera. Honum var sjáanlega mjög heitt í hamsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert