„Grunsamlegar mannaferðir“ reyndust ferðamenn í norðurljósaleit

Grunsamlegar mannaferðir við Hafravatnsveg sem lögreglu barst tilkynning um laust …
Grunsamlegar mannaferðir við Hafravatnsveg sem lögreglu barst tilkynning um laust eftir miðnætti reyndust vera ferðamenn í leit að norðurljósum. mbl.is/Stella Andrea

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt og gistu sex manns  fangageymslur lögreglu í nótt. 101 mál var skráð í dagbók lögreglu og flest sneru að ökumönnum sem óku undir áhrifum áfengis og fíkniefna og þó nokkrir óku án ökuréttinda. 

Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu og var einn handtekinn.

Um klukkan átta í gærkvöldi var maður handtekinn, grunaður um fjársvik. Var hann í annarlegu ástandi og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að yfirheyra hann vegna málsins. 

Um klukkan ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um skammbyssu sem lá á gangstétt í borginni. Þegar lögregla kannaði málið kom í ljós að um leikfangabyssu var að ræða. 

Þá barst lögreglu tilkynning um grunsamlegar mannaferðir við Hafravatnsveg skömmu eftir miðnætti. Þegar nánar var að gáð var um að ræða ferðamenn í norðurljósaleit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert