„Margbúið“ að skipuleggja komu Pence

Stofnæðum höfuðborgarinnar verður lokað á morgun vegna komu Mike Pence, …
Stofnæðum höfuðborgarinnar verður lokað á morgun vegna komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins. mbl.is/Árni Sæberg

Borgartún verður lokað í átta klukkustundir á morgun, um tíma verður lokað fyrir umferð í báðar áttir um Sæbraut, þ.e. á milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar, vegna heimsóknar Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Þetta eru dæmi um gatnalokanir sem verða á morgun.

Vegfarendur sem hyggjast leggja leið sína um borgina mega búast við talsverðum umferðartöfum vegna lokana strax í fyrramálið. Þeir eru hvattir til að kynna sér götulokanir áður en haldið er af stað út í umferðina. „Öryggiskröfurnar eru það miklar að það verður mikið inngrip. Umferðartafir verða miklar á morgun,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

„Verður mikið inngrip í umferðina“

„Við reynum að sigla á milli öryggiskrafna sem okkur er gert að uppfylla og þess minnsta sem við getum gert. Þegar umferðarfylgdin fer af stað verður mjög mikið inngrip í umferðina,“ segir Ásgeir um bílferð varaforsetans um Reykjanesbrautina án þess að fara nánar út í í hverju það felist.  

Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna tekur þátt í þessu verkefni. Til að mynda hafa verið kallaðir aukalögreglumenn á vakt, vöktum lögreglumanna hefur verið breytt sem og kallaðir út  lögreglumenn frá öðrum embættum af landsbyggðinni. „Við skerðum ekki neyðarviðbragðið en það verður lítið sýslað annað hjá embættinu á morgun,“ segir Ásgeir og bætir við: „Þetta er einnig óhemju dýrt.“  

„Fjármálastjórinn verður ekki ánægður með mánuðinn“

„Það hafa orðið miklar breytingar á dagskránni. Við erum margbúnir að plana þennan viðburð,“ segir hann. Hann viðurkennir að síðustu dagar hafi verið „krefjandi“ en þeim hafi þó ekki leiðst.

Dag­skrá vara­for­set­ans hef­ur verið á reiki, til að mynda hvort hann þiggi há­deg­is­verðarboð Guðna Th. Jó­hann­es­son­ar á Bessa­stöðum. Eft­ir há­degi fund­ar Pence með Guðlaugi Þór Þórðar­syni í Höfða og loks með Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra í hús­næði Land­helg­is­gæsl­unn­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli.  

Ásgeir segir þetta gríðarlega stóra lögregluaðgerð eins og lýsingin ber vitni um. 

Löggæslan hefur haft í nægu að snúast síðasta mánuðinn og verkefnunum fækkar ekki á næstunni. Fyrir skemmstu var viðbúnaður vegna heimsóknar norrænu ráðherranna hingað til lands og ekki er langt síðan menningarnótt og gleðigangan fór fram með tilheyrandi löggæslu.

Forseti Indlands kemur í næstu viku og svo er það þingsetningin. Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur. Ég man ekki eftir að hafa átt svona mánuð frá því ég byrjaði. Fjármálastjórinn verður ekki ánægður með mánuðinn,“ segir hann og brosir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert