Áttu opinskátt samtal um stöðu lögreglunnar

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri yfirgefur dómsmálaráðuneytið.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri yfirgefur dómsmálaráðuneytið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum opinskátt samtal um stöðu lögreglunnar í heild,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um fund sem hún átti nú í hádeginu með Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra.

Ummæli ríkislögreglustjóra í Morgunblaðinu um helgina hafa verið mikið í umræðunni undanfarna daga, en þar sagði Haraldur m.a. gagn­rýni sína á fram­göngu lög­reglu­manna eiga þátt í þeirri undiröld­u sem nú væri innan lögreglunnar.

„Við ræddum stöðu lögreglunnar vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum undanfarnar vikur, en einnig um framtíðarskipan lögreglumála, bæði hans hugmyndir og mínar og stöðu ríkislögreglustjóra þar,“ segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

Spurð hvort samhljómur sé með skoðunum þeirra ríkislögreglustjóra segist Áslaug Arna hafa lýst þeirri skoðun sinni að ástandið nú sé óásættanlegt. „Við erum svo sammála um að það fyrirkomulag sem er uppi gengur ekki  og að þetta ástand geti ekki verið viðvarandi.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson Thors

Er með málið til ítarlegrar skoðunar 

Áður hefur komið fram að Áslaug Arna hafi sagt starfs­loka­samn­ing við Har­ald vera til skoðunar. Spurð hvort þau mál hafi borið á góma segist Áslaug Arna einungis hafa sagt þetta mál hans í heild sinni vera „til skoðunar“. Það hafi hins vegar ekki komið til umræðu á þessum fundi.

„Mitt helsta verkefni er að sjá til þess að þær stofnanir sem tryggja eiga öryggi landsmanna virki sem best og ég er með málið til ítarlegrar skoðunar,“ segir hún.

Í viðtalinu við Morgunblaðið ræddi Haraldur m.a. um  spillingu innan lögreglunnar og er ráðherra er spurð hvort þau mál hafi borið á góma segir hún þau hafa átt opinskátt samtal um stöðu lögreglunnar í heild“. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég hitti ríkislögreglustjóra og ég er með þetta mál allt til ítarlegrar skoðunar,“ segir Áslaug Arna og kveður það fela í sér að kanna hvernig þessum málum geti verið sem best háttað með það að leiðarljósi að öryggi landsmanna sé tryggt.

Varðandi það hvort fleiri fundir með öðrum lögreglustjórum verði haldnir á næstunni kveðst Áslaug Arna sem nýr dómsmálaráðherra þurfa að hitta lögreglustjóra og fleiri aðila sem tengjast þessu. „Þetta mál verður ekki leyst í fjölmiðlum, en ég mun ræða við þá líkt og aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert