Ísland komið á gráa listann

Ísland er komið á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta kemur fram á Twitter-síðu blaðamannsins Koos Couvée, en áður hafa Ríkisútvarpið og Mannlíf greint frá málinu.


Þar segir að önnur lönd sem bætist við á listann séu Mongólía og Simbabve. Af listanum fari hins vegar Eþíópía, Sri Lanka og Túnis.

Fjallað er einnig um málið á vef fréttaveitunnar Bloomberg. Þar segir að FATF fagni því að umrædd ríki hafi komið sér upp aðgerðaáætlunum í samstarfi við starfshópinn til þess að bregðast við alvarlegustu málunum sem taka þurfi á. Þá er einnig fagnað skuldbindingu forystumanna ríkjanna til þess að framfylgja þeim áætlunum.

Grái listinn inniheldur ríki sem þykja ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Mbl.is hefur haft samband við fulltrúa stjórnvalda vegna málsins en ekki hefur fengist staðfest þar að Ísland sé komið á listann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert