FA leggst gegn frumvarpi til samkeppnislaga

Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem sendi í dag …
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem sendi í dag frá sér nokkuð harðorða umsögn um drög að frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum. Ljósmynd/Aðsend

Félag atvinnurekenda (FA) leggst eindregið gegn því að heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að bera ákvarðanir áfrýjunarnefndar samkeppnismála (ÁNS) undir dómstóla verði afnumin, eins og lagt er til í drögum að nýju frumvarpi til laga um breytingu á samkeppnislögum.

Í umsögn FA um frumvarpið, sem birt var í dag, segir að slík lagabreyting myndi „veikja stöðu Samkeppniseftirlitsins, í þágu fyrirtækja sem hafa brotið eða vilja brjóta samkeppnislög“, þar sem ekki væri lengur hægt að hnekkja röngum niðurstöðum ÁNS. Um væri að ræða „draumaland þeirra sem kjósa að brjóta samkeppnislög og hafa ábata af slíkum brotum.“

FA bætir því við að afnám þessarar heimildar yrði að sama skapi „martröð þeirra sem trúa á virka samkeppni, heilbrigða viðskiptahætti og eðlilegt og virkt réttarríki þar sem óréttur fær ekki óhindraða framgöngu.“

Þingið tæki sér stöðu gegn almenningi

„Með því að samþykkja umrædda breytingu væri Alþingi að ganga erinda stórfyrirtækja sem vilja komast hjá réttmætum afleiðingum samkeppnislagabrota sinna og viðhalda háttsemi sem skaðar allan almenning. Þannig tæki þingið sér stöðu gegn almenningi í landinu, sem og gegn smærri og meðalstórum fyrirtækjum sem hvað mesta hagsmuni eiga af því að farið sé að ákvæðum samkeppnislaga,“ segir í harðorðri umsögn FA, sem tekur með þessu undir þær áhyggjur sem Samkeppniseftirlitið sjálft hefur þegar sett fram vegna frumvarpsins.

Auk Samkeppniseftirlitsins hefur Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, dósent í viðskiptafræði við HÍ og fyrrverandi stjórnarmaður Samkeppniseftirlitsins, verið afar gagnrýninn á afnám heimildar Samkeppniseftirlitsins til þess að bera niðurstöður ÁNS undir dómstóla. Hann og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, tókust á um málið í Kastljósi í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi og voru þar ósammála um margt.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra samkeppnismála, sem lagði frumvarpsdrögin fram til umsagnar, sagði við RÚV á þriðjudag að gagnrýni á frumvarpið kæmi ekki á óvart, en að hún stæði við sínar tillögur.

Umfjöllun um umsögn FA á vef félagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert