Reiðhjól verði undanþegin virðisaukaskatti

Virðisaukaskattur á reiðhjólum, upp að 100.000 króna virði, verður felldur …
Virðisaukaskattur á reiðhjólum, upp að 100.000 króna virði, verður felldur niður strax um áramót verði frumvarpið að lögum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Reiðhjól verða undanþegin virðisaukaskatti, nái drög að frumvarpi um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja fram að ganga, en þau voru lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að ekki verði greiddur virðisaukaskattur af hefðbundnum reiðhjólum upp að 100.000 krónum, og rafmagnshjólum upp að 400.000 krónum. Fari söluverð yfir þá fjárhæð er greiddur virðisaukaskattur af mismuninum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess sé að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum. Er hér brugðist við gagnrýni margra sem bent hafa á að rafmagnsbílar séu undanþegnir virðisaukaskatti, í umhverfisskyni, á sama tíma og umhverfisvænni kostir á borð við rafmagnshjól, eða bara hefðbundið hjól, séu það ekki.

Tvinnbílar skattlagðir

Gildistími samskonar virðisaukaskattsívilnunar fyrir rafmagns- og vetnisbíla framlengdur til ársloka 2023, en en þær hefðu að óbreyttu fallið niður við árslok 2020. Þær ívilnanir eru öllu ríflegri, eða upp að andvirði 6,5 milljónir króna. Ívilnanir svokallaðra tengiltvinnbíla verða hins vegar ekki framlengdar, og falla því niður í árslok 2020.

Heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis hluta þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu við uppsetningu hleðslustöðva, verður einnig aukin, úr 60% í 100%.

Drögin eru til umsagnar í tvær vikur, eða til 12. nóvember. Þegar hafa þrjár umsagnir borist, sem allar eru á einu máli um að frumvarpið sé góðra gjalda vert en að óeðlilegt sé að þak á endurgreiðslu sé lægra á hefðbundnum reiðhjólum en rafmagnshjólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert