Sýndarmennska og aðför að réttarríkinu

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Samfylkinguna harðlega í færslu á Facebook í dag og segir hana hafa hoppað á vagn sýndarmennskunnar eftir þátt Kveiks þar sem fram komu ásakanir um alvarleg brot Samherja. 

Brynjar segir að þátturinn hafi eðlilega kveikt upp neikvæðar tilfinningar landsmanna og að þegar „slíkt gerist hoppar Samfylkingin strax á vagn sýndarmennskunnar og slær í hvert sinn eigið met.“

Þá segir Brynjar: „Auðvitað kom breytingatillaga við fjárlögin frá Samfylkingunni um aukið fé til skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara án þess að nokkur krafa hafi komið frá embættunum auk þess sem auknu fé hefur verið varið til rannsókna á peningaþvætti og skattsvikum. Síðan kom krafa um kyrrsetningu allra eigna Samherja án þess að lagaskilyrði væru fyrir því auk þess að það myndi valda félaginu, hundruðum fjölskyldna og þjóðinni allri verulegu tjóni. Reynt var að blanda saman við þetta mál fiskveiðistjórnunarkerfinu og gráa lista FATF í pólitískum tilgangi. Kæmi ekki á óvart að Samfylkingin gæti skráð sýndarmennskuna í þessu máli í heimsmetabók Guinness.

Við höfum stofnanir til að rannsaka mál og ákæra og dæma eftir atvikum. Mikilvægt er að þessar stofnanir fái að vinna sitt verk án upphrópana og sýndarmennsku stjórnamálamanna og lærum af reynslunni í þeim efnum. Orðræða sumra stjórnmálamanna í umræðunni er í mínum huga ekkert annað en aðför að réttarríkinu og með góðum rökum má kalla það pólitíska spillingu.

Svo er ég alltaf jafn undrandi á að kjörnir fulltrúar leggi sérstaka áherslu á í málflutningi sínum að sverta Ísland um allan heim. Er Samfylkingin kominn fram úr Pírötum í þeim efnum. Vona innilega að þessu fólki verði ekki falið mikilvægt vald í framtíðinni til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.“

Toppurinn í sýndarmennskunni

Nokkru síðar bætti Brynjar við í nýrri færslu að hann hefði gleymt að „nefna toppinn í sýndarmennsku Samfylkingarinnar. Nú á að nota styrkinn frá Samherja til flokksins undanfarin misseri til að hjálpa bágstöddum í Namíbíu. Er það út af fyrir sig góðra gjalda vert og fleiri mega styrkja bágstadda í heiminum.

Þeir sem eru eldri en tvævetur muna kannski eftir styrkjunum til stjórnmálaflokka fyrir hrun og voru eðlilega gagnrýndir. Þar tróndu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn á toppnum. En Samfylkingin hefur ekki endurgreitt þá tugi milljóna sem hún fékk í styrki þá. Það gerði þó Sjálfstæðisflokkurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert