„Allt kerfið er viðkvæmt“

Starfsmenn RARIK að störfum á Skaga.
Starfsmenn RARIK að störfum á Skaga. Ljósmynd/Rósant Guðmundsson

„Staðan er sú að það eru allir með rafmagn í Húnavatnssýslu nema í Blöndudal og hluta af Svartadal. Það er verið að vinna þar, það hefur ekki hangið almennilega inni, að hluta til vegna seltu.“

Þetta segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik. Annars séu flestallir komnir með rafmagn, en kerfið sé viðkvæmt.

„Það er verið að vinna í Fnjóskadalnum, Þistilfirðinum og reyndar á austanverðum Skaganum. Það er verið að ljúka við það og við vonumst til að það komi inn fljótlega, nyrsti hluti þess. Við erum búin að bíða eftir því í smá tíma en teljum þeirri viðgerð sé að ljúka. Annars er bara keyrt á Dalvík dísill og fyrir norðausturhornið, nema Kópasker er komið með rafmagn frá landskerfinu,“ segir Tryggvi.

Flestir staurar orðnir uppréttir

Rarik hefur reist flesta staura á sínum vegum, sem brotnuðu í óveðrinu, en Landsnet vinnur enn að því að lagfæra Dalvíkur- og Kópaskerslínu. „Við erum svo að byrja á línu frá Dalvík til Árskógssands, væntanlega í dag, og eins á línu á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.“

Unnið er að viðgerð nyrst á Skaga og Dalvík er …
Unnið er að viðgerð nyrst á Skaga og Dalvík er keyrð á dísel, en að öðru leyti eru flestir staðir með rafmagn sem stendur. Kort/Landsnet/Samsýn

„Allt kerfið er viðkvæmt. Það er selta og það eru truflanir af og til. Það er mjög erfitt að eiga við það, í raun og veru þyrfti að fara upp í hvern einasta staur og hreinsa. Svo má vonast til þess að það rigni eitthvað aðeins svo það skolist af,“ segir Tryggvi.

Veðurspáin er Rarik þó ekki í hag. „Við vorum með smá snjókomu á okkur í gær og í dag og það er misjafnlega blautt í því. Þegar það blotnar leysir svolítið út en ef það blotnar nógu mikið þá kannski fer að hreinsast en það getur þá frosið á aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert