Óvægin umræða um hrossaeigendur

Hrossaeigendur sem áttu hross sem fenntu í kaf hafa orðið …
Hrossaeigendur sem áttu hross sem fenntu í kaf hafa orðið fyrir óvæginni umræðu. mbl.is/Rax

„Umræðan hefur verið óvægin og fólk sett sig í dómarasæti án þess að hafa alveg forsendur til þess,“ segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir Matvælastofnunar, um umræðu á samfélagsmiðlum um eigendur hrossa sem drápust vegna veðurofs­ans sem gekk yfir landið í síðustu viku. Þung orð hafa verið látin falla um hrossaeigendur og þeir meðal annars sakaðir um að hugsa ekki nógu vel um hrossin. 

Á bilinu 60-80 hross drápust í fárviðrinu sem gekk yfir landið norðan- og vestanvert. Sigríður vonast til að ekki bætist við þennan fjölda. Hrossabændur eru í öngum sínum yfir ástandinu og þetta tekur mikinn toll af fólk sem hefur lent í þessu, að sögn Sigríðar. „Ég held að enginn vilji lengur tjá sig. Ég held að það hafi alveg verið skrúfað fyrir það með kommentakerfunum. Menn eru með varann á sér og vilja ekki ræða þetta opinberlega. Það sér hvað nágrannarnir sem sögðu frá þessu opinberlega fóru illa út úr því,“ segir Sigríður.

Ekki er gerð krafa um húsakost fyrir útigangshross í reglugerð um velferð hrossa. Hins vegar að ef spáð er ofsaveðri og rauð viðvörun er í gildi og menn hafa til þess húsakost er það æskilegt að þeir hýsi þau. Það getur þá átt við sérstaklega viðkvæmar skepnur. „Það er viðurkennt að hross séu á útigangi. Það er okkar skoðun og skilningur að hross hafi það hvergi betra en úti ef þau eru ekki í notkun til reiðar,” segir Sigríður og vísar til frekari lýsingar á aðbúnaði útigangshrossa á vefsíðu MAST.  

Afföll fáheyrð í stórviðri

„Íslenski hesturinn hafi lifað með íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær að njóta sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er grundvallarþörf hjá öllum hrossum en mikilvægust ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi.” Þetta kemur fram á vefsíðu MAST.

Þar er umráðamönnum ennfremur bent á að fylgjast vel með veðurspá og að ganga úr skugga um að þau hafi aðgang að heyi þegar veðrið skelli á en meltingin heldur á þeim hita. „Þá þarf ekki að óttast að þau standi ekki af sér stórviðri enda eru afföll fáheyrð,“ segir jafnframt. 

Spurð hvort tilefni sé til að endurskoða þessa reglugerð í ljósi nýliðinna atburða, telur hún að svo sé ekki. „Ég tel þetta algjört einsdæmi það sem gerðist núna og í raun engin ástæða til þannig breytinga,“ segir Sigríður. Hún tekur fram að núna séu dýraeftirlitsmenn og starfandi dýralæknar í gagnaöflun til að unnt sé að kortleggja stöðuna um ástandið til að fá heilsteypta mynd af því. „Við munum skoða í ljósi þess hvort það sé ástæða til að leggja til breytingar á einhverju. Það eru punktar sem hægt er að læra af og þegar við höfum dregið upp heildamyndina mun Matvælastofnun koma jafnvel fram með einhverjar tillögur að breytingum,“ segir hún. 

Forgangsverkefni hjá hrossbændum núna er að ganga úr skugga um að hross á útigangi hafi aðgang að góðu heyi og rennandi vatni sé þess kostur en annars borða þau snjó til að slökkva þorstann. Spáð er leiðindaveðri á morgun, stífri norðaustanátt með úrkomu en þó ekki aftaka veðri í líkingu við nýafstaðið áhlaup.

„Það er mjög mikilvægt fyrir hross sem eru að jafna sig eftir þetta skot að hlúð sé að þeim. Það er hægt að gera úti. Þau sem eru veik er þarf að hlúa að inni og það er gert í samráði við dýralækni,“ segir hún. 

Hross hópa sig saman í Húnavatnssýslu í desember.
Hross hópa sig saman í Húnavatnssýslu í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert