Lögðu fram hugmynd um tvöföldun leiguverðs

Forsvarsmaður Karls mikla segir að ekkert svar hafi borist frá …
Forsvarsmaður Karls mikla segir að ekkert svar hafi borist frá Bíó Paradís á því rúma ári sem liðið sé frá því að lögð var fram hugmynd um rúmlega tvöföldun leiguverðs. mbl.is/Golli

Stjórnarformaður Karls mikla ehf., félagsins sem á húsnæðið á Hverfisgötu 54 þar sem Bíó Paradís er til húsa, segir fréttaflutning af málinu ekki standast. 

Greint hefur verið frá því að Bíó Paradís hafi sagt upp öllu starfsfólki í afgreiðslu og að starfsemi kvikmyndahússins ljúki 1. maí. Leigusamningur vegna húsnæðisins rennur út 30. júní, en að sögn bæði framkvæmdastjóra Bíós Paradísar, Hrannar Sveinsdóttur, og Arnars Haukssonar, stjórnarformanns Karls mikla, er núverandi leiguverð langt undir markaðsverði. Þá hafi það legið fyrir frá því að Karl mikli keypti húsnæðið að leiguverð yrði hækkað með tilliti til markaðsverðs að gildandi leigusamningi loknum.

Arnar segir hins vegar ekki rétt að farið hafi verið fram á þre- eða fjórfalda hækkun á leiguverði. Rétt sé að félagið hafi fengið leigumiðlara til að meta rétt verð húsnæðisins og að í kjölfarið hafi samband verið haft við rekstraraðila Bíós Paradísar með þá hugmynd að leiguverðið yrði rúmlega tvöfaldað.

Núverandi leiguverð 961 króna á fermetrann

Það hafi verið gert í nóvember 2018 en engin viðbrögð hafi borist frá forsvarsfólki kvikmyndahússins. Leiguverð hafi ekki verið rætt síðan.

Arnar segir að leiguverð húsnæðisins á Hverfisgötu 54 sé nú 961 króna á fermetrann og að leigukostnaður Bíós Paradísar nemi um 13,5 milljónum á ári. Til samanburðar var áætluð meðalleiga atvinnuhúsnæðis á fermetra rúmlega 2.300 krónur á fermetrann, óháð staðsetningu, árið 2017, samkvæmt Hagsjá Landsbankans.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert