„Eðlilegt“ og „sjálfsagt“ að leggjast á árarnar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætlar að rannsaka kórónuveiruna og …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætlar að rannsaka kórónuveiruna og útbreiðslu hennar hér á landi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þessi hugmynd kom upp um hádegisbilið í dag að við ættum að skima fyrir þessari veiru þar sem komið er upp smit í samfélaginu frá einum einstaklingi yfir í annan. Það er mjög mikilvægt að finna út hvernig veiran breiðist út í íslensku samfélagi,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári hafði samband við íslensk heilbrigðisyfirvöld og býðst til að skima fyrir kór­ónu­veirunni sem veld­ur COVID-19-sjúk­dómn­um hjá fólki sem er með einkenni frá efri öndunarvegi t.d. kvef, hósta, nefrennsli, hita eða beinverki. Þetta fólk þarf ekki að hafa verið á áhættusvæðum eða tengjast einstaklingum sem hafa verið á hættusvæðum. Mögulega yrðu einnig aðrir skimaðir út fyrir þetta. Kári reiknar með að hægt verði að hefjast handa fljótlega við að taka sýni, mögulega á næstu dögum.

Raðgreina veiruna en það getur Landspítalinn ekki

„Við leggjumst á árarnar með Landspítalanum sem er með takmarkaða getu. Við erum með tæki, rannsóknarstofu sem er útbúin til að vinna með veirur og fólk sem er mjög flinkt við þetta. Það sem við ætlum að gera umfram það sem Landspítalinn hefur verið að gera er að raðgreina veirurnar úr þeim sem eru jákvæðir. Hugmyndin að baki því er að læra um það hvernig veiran er að stökkbreytast. Það er alveg ljóst að hún er að stökkbreytast. Þegar hún stökkbreytist getur hún sloppið undan ónæmiskerfinu okkar og farið að vega að fólki sem hefur meira að segja ónæmi fyrir annarri gerð af veirunni. Það gefur okkur líka tækifæri til að komast að raun um hver hefur smitast af hverjum,“ útskýrir Kári.

Þessar aðgerðir miða allar að því að skilja betur hvernig veiran hagar sér í samfélaginu. Það er forsendan fyrir því að bregðast skynsamlega við. 

Leiðbeiningar til fólks um kórónuveira COVID-19
Leiðbeiningar til fólks um kórónuveira COVID-19 mbl.is/Hallur Már

„Ég lít svo á að þessi faraldur sé það ógnvekjandi að við eigum öll að snúa saman bökum og berjast við þetta. Mér finnst þetta vera eitt af þeim augnablikum þar sem samfélagið á að koma saman. Mér finnst þetta eitt af þeim augnablikum þar sem mér finnst til skammar að Samtök atvinnulífsins séu að halda því fram að atvinnurekendur eigi ekki að greiða fólki laun sem er í sóttkví. Sóttkví þjónar fyrst og fremst samfélaginu en ekki einstaklingnum sem er í sóttkvínni,“ segir Kári og bætir við að brýnt sé að allir fari eftir tilmælum stjórnvalda. 

Vill taka þátt í baráttunni

Spurður hvort þetta sé einstakt að fyrirtæki bjóði heilbrigðisyfirvöldum krafta sína í þessari baráttu vill Kári ekki meina það. „Við erum ekki að berja okkur á brjóst yfir því. Við erum ósköp einfaldlega að gera það sem okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að gera,“ segir hann. Hann viðurkennir að það sé mjög gefandi að taka þátt í þessu verkefni og „lætur manni líða ekki eins og maður sé fórnarlamb heldur að maður sé að taka þátt í baráttunni“.

Núna er unnið að tæknilegum atriðum og meðal annars að útvega fleiri sýnatökupinna. Í dag hefur Kári haft samband við fjölda fyrirtækja, meðal annars í Bandaríkjunum, til að útvega fleiri slíka. Mögulega þyrfti að nota annars konar pinna til að taka sýni.

„Komum ekki til með að spara neitt til“

Spurður hversu margir starfsmenn muni sinna þessu verkefni segist Kári í raun ekki hafa hugmynd um það en það verði eins margir og þarf. „Við ætlum að gera þetta eins myndarlega og til þarf og við getum. Við komum ekki til með að spara neitt til þess,“ segir hann. 

Þetta verkefni mun eflaust hafa áhrif á aðra starfsemi fyrirtækisins og Kári lætur sér þær tilfæringar í léttu rúmi liggja. „Eins og segir á gullaldarmálinu: „So what?““ segir hann og bætir við: „Þetta er mál málanna núna.“

Sýnataka heilbrigðisstarfsmanna vegna kórónuveiru.
Sýnataka heilbrigðisstarfsmanna vegna kórónuveiru. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert