Loka skólum vegna smits í Mývatnssveit

Frá Mývatni.
Frá Mývatni. mbl.is /Birkir Fanndal

Viðbragðsteymi Skútustaðahrepps hefur ákveðið að fella niður hefðbundið skólahald bæði í leikskólanum Yl og Reykjahlíðarskóla frá og með deginum í dag um óákveðinn tíma. 

Á fundum teymisins í gær var ákveðið að gera þetta vegna hertari aðgerða heilbrigðisyfirvalda í gær, vegna þess að að minnsta kosti eitt smit er staðfest hjá íbúa sveitarfélagsins og vegna þess að staðfest er að hátt í annar tugur af íslenskum ferðamönnum sem dvöldust í Mývatnssveit um síðustu helgi er smitaður af kórónuverunni. Þá liggi fyrir að mikið óvissuástand hefur skapast í sveitarfélaginu. Líkt og fram hefur komið í þættinum Harmageddon á X977 er nánast allur skíðahópurinn smitaður af COVID-19 en allur hópurinn er annað hvort í einangrun eða sóttkví. Þar á meðal Róbert Marshall, nýráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Til þess að gæta ýtrustu varúðarráðstafana gagnvart viðkvæmustu íbúum sveitarfélagsins og til að forðast frekari smithættu og hefta frekari útbreiðslu kórónuveirusmits hefur sú ákvörðun verið tekin að fella niður hefðbundið skólahald og jafnframt hefur verið ákveðið að íþróttamiðstöðinni verði lokað um óákveðinn tíma.

Kennarar Reykjahlíðarskóla munu halda úti fjarkennslu með verkefnum á þeim stafræna vettvangi sem þeir hafa valið og munu senda frá sér nánari fyrirmæli og leiðbeiningar í dag í tölvupósti. Tónlistarkennsla verður áfram í formi fjarkennslu.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert