„Þarna brást kerfið og þarna brást ég“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarna brást kerfið og þarna brást ég, því ég er hluti af kerfinu,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í Silfrinu á RÚV í dag, þar sem hann var gestur, rétt eins og hinn forsetaframbjóðandinn þessar kosningarnar, Guðmundur Franklín Jónsson.

Guðni segir að hann hafi brugðist þegar þegar Róbert Downey og Hjalti Sigurjón Hauksson voru á meðal þeirra sem fengu uppreist æru hjá stjórnvöldum eftir að hafa setið í fangelsi vegna kynferðisbrota gegn börnum. Þá skrifaði forsetinn undir bréf frá innanríkisráðuneytinu til staðfestingar á uppreist æru fyrir þessa menn, en fékk ekki fylgiskjöl um eðli brota þeirra. Hann skrifaði því undir án vitundar um eðli brota þeirra og á því hefur hann áður beðið fórnarlömbin afsökunar.

„Það blossaði upp reiði í samfélaginu og ég fann það og fólkið í ráðuneytinu fann það. Hvað var til ráða? Að skýla sér á bak við það að forseti er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum? Á bak við það að ég fylgdi fordæmum í einu og öllu? Já, það er freistandi. En nei. Ég fann það í sál og sinni að það vildi ég ekki gera. Þarna hafði ég brugðist þessum stúlkum, þannig að ég fékk þær til fundar á Bessastöðum. Ég bað þær afsökunar. 

Þær voru hetjur sem sögðu hingað og ekki lengra. Við viljum fá þessu breytt. Og þá var það gert. Ég lét þá vita sem þurftu að vita að þetta yrði ekki gert aftur og með öðrum var því komið til leiðar að lög um uppreist æru féllu úr gildi og eru ekki lengur til. Ég var ekki fyrsti forseti til að staðfesta ákvörðun ráðuneytis um uppreist æru. En ég var sá síðasti,“ sagði Guðni.

Guðni um Guðmund: „Það fór vel á með okkur“

Í þættinum var Guðni spurður út í aðra kima ábyrgðarsviðs forseta, svo sem um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hann sagði þriðja orkupakkann í því samhengi ekki hafa reynst sér erfitt mál, þ.e. þegar skorað var á hann að senda þriðja orkupakkann í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þingsályktunartillagan lá fyrir þinginu síðasta sumar. Guðni svaraði því til að fordæmin sem hann hefði um slíkar aðgerðir frá 2004, 2010 og 2011 væru allt spurning um tugi þúsunda undirskrifta, en í tilfelli orkupakkans hafi undirskriftirnar ekki verið nema 7.500. Hann hafi því ekki reynst honum erfitt mál.

Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi var einnig gestur í Silfrinu og sagði orkupakkann þar tilvalinn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur talað fyrir rýmri notkun á því ákvæði, nái hann kjöri.

Guðmundur Franklín Jónsson.
Guðmundur Franklín Jónsson.

Guðni rifjaði það upp að síðast þegar hann hitti Guðmund var það einmitt þegar Guðmundur skilaði inn undirskriftalistanum um að vísa þriðja orkupakkanum í þjóðaratkvæðagreiðslu, bón sem Guðni sá ekki ástæðu til að verða við. „Það fór vel á með okkur,“ sagði Guðni um þann fund. 

Guðni sagðist annars mundu reka hófstillta kosningabaráttu, enda skyldur embættisins miklar og ekki hægt að taka sér frí frá þeim. Hann hvatti til heiðarleika: „Við eigum að geta gengið til kosninga á heiðarlegum forsendum, verið drengileg, jákvæð og bjartsýn. Þannig vil ég haga minni kosningabaráttu og vænti þess að aðrir geri það líka,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert