Ellefu heim vegna gruns um smit

Grunur hefur vaknað um smit í Melaskóla.
Grunur hefur vaknað um smit í Melaskóla. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Nokkrir starfsmenn Melaskóla hafa verið sendir heim eftir að grunur vaknaði um smit innan veggja skólans, þar sem maki starfsmanns skólans greindist með veiruna. 

„Við bíðum bara fregna, einhverjir gætu þurft að vera á morgun en það er ekki víst,“ segir Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri Melaskóla. Starfsmaðurinn hefur þegar farið í skimun og er niðurstaðna að vænta í kvöld eða á morgun. 

„Nokkrir fóru heim eftir að þetta kom upp og síðan bað ég nokkra með undirliggjandi veikindi að vera heima. Við bíðum bara fregna,“ segir Björgvin en RÚV greindi fyrst frá málinu. 

Ellefu manns hafa samtals farið heim vegna smitsins, nokkrir sem tilheyra áhættuhópi og nokkrir sem höfðu verið í návígi við starfsmanninn, að sögn Björgvins. Gripið hefur verið til aukinna sóttvarnaráðstafana vegna smitsins; húsnæði skólans hefur verið hólfað niður og reynt er að takmarka samneyti starfsmanna. 

„Íþróttakennslan og sundkennslan er kannski í vissu uppnámi þar sem íþróttakennararnir starfa dálítið mikið saman, svo það þarf mögulega að halda þeim áfram heima. En það kemur í ljós hvort þetta mun hafa frekari afleiðingar,“ segir Björgvin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert