Sex hundruð milljónir árlega í Loftbrú

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti Loftbrú á Egilsstöðum …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti Loftbrú á Egilsstöðum í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti í dag til leiks Loftbrú, afsláttarkjör sem gefa fólki á landsbyggðinni kost á lægri flugfargjöldum til Reykjavíkur.

Síðustu mánuði hefur verið unnið að íslenskri útfærslu skosku leiðarinnar svonefndu, greiðsluþátttöku ríkisins í fargjöldum í innanlandsflugi. Á kynningarfundi á Egilsstaðaflugvelli í dag upplýsti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að umrædd leið myndi kallast Loftbrú hér. Sagði ráðherra að hann teldi Loftbrú vera eina af mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hefði verið í og innleiðing hennar hefði verið á stefnuskránni frá því hann kom í ráðuneytið.

„Með Loftbrú viljum brúa bilið milli landsbyggðar og höfuðborgar og bæta aðgengi íbúa að fjölbreyttri en mikilvægri miðlægri þjónustu í höfuðborginni,“ sagði ráðherra.

Kostnaður við greiðsluþátttöku ríkisins við lækkun flugfargjalda í verkefninu er metinn allt að 600 milljónum króna á ársvísu og 200 milljónum króna á þessu ári. Gert er ráð fyrir þeim fjárframlögum í samgönguáætlun sem samþykkt var í júní, að því er fram kemur í tilkynningu. 

Hann upplýsti að Loftbrú veiti afsláttarkjör til allra þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald.

Loftbrúin nær til 60 þúsund íbúa landsbyggðarinnar.
Loftbrúin nær til 60 þúsund íbúa landsbyggðarinnar.

Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir).

Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum.

Til að nýta afsláttarkjörin auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum á Ísland.is og fær þar sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, bókaði fyrsta fargjaldið með Loftbrú af þessu tilefni.

Sérstök upplýsingasíða um Loftbrú hefur verið opnuð en auk íslensku er hún einnig á ensku og pólsku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert