Bjartsýni vegna góðs gengis um hátíðarnar

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekkert kórónuveirusmit greindist í gær enda voru engin sýni tekin, sýnatökustaðir voru allir lokaðir á nýársdag. Þar sem ennþá er helgi, þegar færri fara í sýnatökur, verðum við að bíða þar til líða fer á vikuna til þess að sjá hvernig til tókst að halda veirunni í skefjum um áramótin.

Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

„Okkur sýnist aðventan hafa gengið vel. Langflestir virðast hafa verið að passa sig vel og í raun fór þetta fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Rögnvaldur aðspurður um hvernig staða faraldursins liti út, nú þegar sá tími sem sóttvarnayfirvöld höfðu hvað mestar áhyggjur af er að mestu liðinn.

Vilja ekki bólusetja á toppi bylgju             

Rögnvaldur segir að hann sé nokkuð bjartsýnn á framhaldið. Hann telur að við séum vonandi að komast í var fyrir veirunni nú aðdraganda víðtækra bólusetninga.

„Vonandi erum við bara að sigla inn í það skjól sem við töluðum um að við þyrftum,“ segir hann og bætir við að „það væri óheppilegt að vera í miðri bylgju þegar flestir landsmenn yrðu bólusettir. Það myndi skapa gríðarlegt álag á kerfið, sem við þó myndum nú líklegast alveg ráða við, en það væri samt sem áður óþarfi.“

Spurður út í hópamyndun á Skólavörðuholti á gamlárskvöld segir Rögnvaldur að málið sé ekki á borði almannavarnadeildar. Hann segist þó hafa séð myndir af hópamyndun í fjölmiðlum og miðað við þær segir hann að svona aðstæður séu kjöraðstæður fyrir kórónuveirusmit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert