Gagnrýnir harða og ómálefnalega orðræðu

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Arnþór

„Andlitslausir eru þeir oft vesalingarnir sem þora ekki að tjá sig í eigin nafni, heldur geysast fram á ritvöllinn í öllum sínum aumingjaskap.  Ef þessi þróun fær að halda áfram óáreitt munu að mínu mati fáir bjóða sig fram til starfa fyrir þjóðina,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í pistli sem hún birti á Facebook í dag.

Þar segir hún árás á skrifstofu stjórnmálaflokka og á bíl borgarstjóra heigulshátt sem einungis er ætlað að skapa ógn og ótta. 

Segir Viðreisn afmanneskjuvæða andstæðinga

Inga heldur áfram og segir Viðreisn gera andstæðinga sína að meindýrum, sem sé þekkt aðferð þeirra sem vilja koma andstæðingum sínum í lóg. Vísar Inga í grein Benedikts Jóhannessonar, fyrrum formanni Viðreisnar, sem lýst hefur yfir að hann muni aftur sækjast eftir þingsæti, frá janúar. 

Þar talaði hann um fólk hér á landi sem af einhverjum ástæðum styddi Donald Trump sem er „fyrrverandi“ en þó ekki þrefaldur slíkur eins og Benedikt sem var hafnað af kjósendum í síðustu þingkosningum en er nú þingmannsefni Viðreisnar og stefnir í framboð á þessu ári. Benedikt talaði um þetta fólk sem „rugludalla“ og uppnefndi það „moldvörpufólkið“. Síðan skrifaði Benedikt í lokaorðum greinar sinnar sem lesa má á vef Viðreisnar: „Skoðanakönnun á Íslandi sýndi þó að tæplega helmingur stuðningsmanna Miðflokksins viðurkenndi að vilja kjósa Trump og nær einn af hverjum fimm í Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokki. Það glittir í moldvörpufólkið.“,“ segir Inga. 

Hún ber þessa orðræðu saman við þá sem beitt var í Rúanda í aðdraganda þjóðarmorðsins árið 1994 og orðræðu nasista í garð gyðinga, sem þeir kölluðu gjarnan rottur.

Gunnar Smári rýi Bjarna mennskunni 

Inga vísar einnig í pistil eftir Gunnar Smára sósíalistaforingja sem birtist á midjan.is 2. janúar sl. þar sem Gunnar segir m.a. þjóðina fyrirlíta Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og skynja vel að hann sé þjóðarníðingur sem vill brjóta niður allt sem einhvers er virði í samfélaginu.  

Bjarni er það sem heitir á almennri leigubílstjóraísku: algjör skíthæll,“ segir í umræddum pistli. 

„Gunnar Smári skrifar að Bjarni Benediktsson sé hættulegur og siðlaus þjóðníðingur, fyrirlitinn af öllum. Þarna er talsmaður og stofnandi Sósíalistaflokksins að reyna að taka mennskuna frá Bjarna Benediktssyni, gera úr honum ófreskju. Gunnar Smári fullyrðir að sú mynd sem hann dregur upp sé viðtekin skoðun almennings,“ segir Inga Sæland.

Lesa má færslu Ingu í heild sinni hér: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert