Öryggisreipið varð allt í einu hættulegt

Leiðin er of brött og hál til þess að allir …
Leiðin er of brött og hál til þess að allir geti farið um hana án þess að halda sér í reipið. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn

Á megingönguleiðinni upp að Geldingadölum í Fagradalsfjalli var sett upp reipi í byrjun vikunnar til að gera fólki kleift að komast upp erfiða og sleipa brekku í fjallinu. 

Þetta reipi hefur verið þúsundum til halds og trausts á leiðinni upp að eldgosi en þegar syrta fór í álinn í málefnum kórónuveirunnar á miðvikudag lýstu margir þeim óþægindum sem fylgdu því að þurfa að styðjast við reipið.

Það er í raun og veru eins sameiginlegur snertiflötur og hugsast getur, á tímum þar sem sameiginlegir snertifletir eru taldir óæskilegir með öllu.

Stór hausverkur

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Almannavarna, segir að þetta sé flókin staða.

„Þetta er stór hausverkur. Þetta reipi tryggir þessa leið sem er hál og brött og er farartálmi án reipisins. Þannig að ef það er ekki þarna er fólk að slasa sig. Á sama tíma er þetta staður þar sem allir koma við það sama,“ segir hann.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

Verið er að leita lausna, eins og til dæmis að koma í það minnsta fyrir öðru reipi sem fólk getur stuðst við á leiðinni niður. Þá má hvetja fólk til að vera með göngustafi og að minnsta kosti klæðast vettlingum þegar reipið er snert og spritta sig eftir á.

Eins og að vera kýldur í magann

Otti Rafn Sigmarsson hjá björgunarsveitinni í Grindavík segir reipið nauðsynlegt til að komast upp en það er auðvitað slæmt með tilliti til Covid-19. „Við erum að reyna að bregðast við þessu og setja sprittbrúsa og fleira,“ segir Otti.

Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni í Grindavík.
Otti Rafn Sigmarsson í björgunarsveitinni í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Covid-19 ofan í eldgos og óveður gerir það að verkum að björgunarsveitarmennirnir læra eitthvað nýtt á hverjum degi, segir Otti. Það er ein leið til að orða það, en önnur er eins og Otti segir: „Þetta er eins og að vera kýldur í magann.“

Otti bendir á að reipið hafi verið sett upp áður en nýr faraldur komst í hámæli og segir að sem stendur sé gengin önnur leið að gosinu en meginleiðin, þannig að einmitt á þessari stundu sé ekki notast við reipið.

Reipið aðstoðar fólk nokkuð langa leið.
Reipið aðstoðar fólk nokkuð langa leið. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn
Mikill fjöldi fólks hefur verið í Geldingadölum í vikunni.
Mikill fjöldi fólks hefur verið í Geldingadölum í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert