Skyldudvöl dæmd ólögmæt

Héraðsdómur dæmdi í dag dvöl tólf einstaklinga í sóttvarnahúsi ólögmæta.
Héraðsdómur dæmdi í dag dvöl tólf einstaklinga í sóttvarnahúsi ólögmæta. Ljósmynd/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt skyldudvöl í sóttvarnahúsi ólögmæta í málum þeirra  sem höfðað hafa mál á hendur ríkinu vegna skyldudvalar í sóttvarnahúsi, sem tekin voru fyrir í dag. 

Þetta staðfestir Ómar R. Valdimarsson lögmaður í samtali við mbl.is. „Niðurstaðan er sú að reglugerðin á sér ekki nægjanlega lagastoð og umbjóðanda mínum verður ekki gert að dvelja í sóttvarnahúsi enda talið sýnt að hann geti lokið við sóttkví heima hjá sér,“ segir hann.

Í málinu vóg skilgreining sóttvarnahúss í sóttvarnalögum þungt að sögn Ómars, en í sóttvarnalögum eru þau skilgreind á þann veg að þau séu ætluð þeim sem ekki eiga samastað á Íslandi.

„Dómurinn segir með mjög afdráttarlausum hætti að það eigi ekki við um minn umbjóðanda,“ segir hann.

Tólf létu á málið reyna og málin voru sjö talsins. Í öllum tilvikum var dvölin dæmd ólögmæt.

Úrskurðurinn hefur fordæmisgildi

„Þetta hefur klárlega fordæmisgildi. Þessi úrskurður er þó miðaður við þennan einstakling [umbjóðanda Jóns] sem skuldbindur sig til að hlíta öllum reglum varðandi sóttkví í heimahúsi,“ segir Jón Magnússon, lögmaður eins sem þurfti að sæta dvölinni. Þeir sem séu í svipuðum aðstæðum ættu því von á sömu niðurstöðu.

„Niðurstaðan er sú að hún er laus úr því og þarf ekki að sæta því að vera í sérstöku sóttvarnahúsi heldur getur farið heim til sín og verið í sóttkví þar.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert