Vatnajökulsþjóðgarður stækkar

Vatnajökulsþjóðgarður þekur rúmlega 14% af flatarmáli Íslands en breytingar á …
Vatnajökulsþjóðgarður þekur rúmlega 14% af flatarmáli Íslands en breytingar á reglugerð voru undirritaðar í dag sem kveða á um stækkun hans. mbl.is/RAX

Breytingar á reglugerð sem kveður á um stækkun á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs voru undirritaðar í dag við athöfn í Skaftafelli af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðs Íslands.

Vatnajökulsþjóðgarður þekur rúmlega 14% af flatarmáli Íslands en stækkun hans mun ná yfir svæði sem tilheyrir Sveitarfélagi Hornafjarðar. Með breytingunni mun vinsælasta uppgönguleiðin á Hvannadalshnjúk falla innan marka þjóðgarðsins.

Á athöfninni var fyrsti UNESCO skjöldurinn einnig afhjúpaður en þjóðgarðurinn komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019. Áætlað er að fleiri skildir verði settir upp á öllum svæðum þjóðgarðsins á komandi árum.

Vilja bæta fræðslu og gönguleiðir

Var viðauki við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðmerkursand einnig staðfestur á athöfninni en það landssvæði bættist við þjóðgarðinn árið 2017. Innan þess svæðis má meðal annars finna Jökulsárlón og Fellsfjöru. Í áætluninni er meðal annars kveðið á um að afmarka fleiri gönguleiðir og bæta fræðslu og upplýsingagjöf á svæðinu.

Fjölsótti ferðamannastaðurinn Jökulsárlón tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði.
Fjölsótti ferðamannastaðurinn Jökulsárlón tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Ásdís

Vatnajökulsþjóðgarður er vinsæll meðal ferðamanna en á árunum 2005-2016 heimsóttu 33-41% erlendra ferðamanna sem komu til landsins svæðið. Nýlegri tölur sýna einnig mikinn áhuga á Skaftafelli og Jökulsárlón en árið 2019 heimsóttu á bilinu 700.000-800.000 gestir þessa staði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert