Fleiri farnir að velja Þrengslin

Umferðartafir milli Hveragerðis og Selfoss á fjórða tímanum í dag. …
Umferðartafir milli Hveragerðis og Selfoss á fjórða tímanum í dag. Á háannatíma getur rétt rúmlega 10 kílómetra leiðin tekið um 45 mínútur í akstri. Ljósmynd/Aðsend

Veruleg röð myndaðist frá Hveragerði og inn á Selfoss í dag. Röðin byrjaði að myndast upp úr hádegi og var fram á kvöld. Samkvæmt lögreglunni á Selfossi var ekki slys sem olli þessari röð, um var að ræða hefðbundna umferð sem sjá má allar helgar.

Lögregluþjónn er ræddi við mbl.is segir þetta einfaldlega bara stöðuna um helgar, það taki 45 mínútur að komast frá Hveragerði inn á Selfoss á háannatímum. Sama sé uppi á teningunum á sunnudögum, en þá sé röðin í vesturátt, frá Selfossi og inn að Hveragerði.

Sumir hverjir séu farnir að keyra Þrengslaveg inn að Þorlákshöfn og þaðan inn á Selfoss til þess að sleppa við röðina, en leiða má líkur að því að sambærileg staða myndist á þeim vegi kjósi fleiri að nýta sér Þrengslin.

Samkvæmt lögreglunni er ekkert eitt sem skýrir röðina, um sé að ræða samspil ýmissa þátta. Brúin yfir Ölfusá sé ákveðin flöskuháls, einnig sé um að ræða verulegan fjölda bíla og mikið sé af fólki sem er á leið sinni inn og út af Selfossi. Einnig spili framkvæmdirnar á veginum inn í en unnið er að tvöföldun vegarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert