„Heilbrigðisstefna Marteins Mosdals“

Nýr þáttur hóf göngu sína á Hringbraut í kvöld með …
Nýr þáttur hóf göngu sína á Hringbraut í kvöld með Páli Magnússyni. Skjáskot/Hringbraut

Nýr þáttur Páls Magnússonar hóf göngu sína á Hringbraut í kvöld og tókust þar á tvö sem bæði hafa reynslu af því að sitja við stjórnvölinn, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra.

Páll spurði þar forsætisráðherra hvort það hefði náðst betri árangur á Landspítala í kjölfar aukinna útgjalda: „Fjölgaði læknisaðgerðum, fjölgaði lækningum, styttust biðlistar, gerðist eitthvað?“

„Auðvitað þarf líka að pæla í hvernig við verjum fjármununum, hvernig við getum gert hlutina betur og ég held að við Sigmundur getum nú alveg verið sammála um það,“ sagði Katrín og benti á að fjármunir skiptu þó máli í hlutum eins og að lækka kostnað sjúklinga.

„Ég skal ekki pirra þig með því að tala um þessa viðbyggingu þarna við myglaða húsið við Hringbraut,“ sagði þá Sigmundur og bætti við að ef hann hefði haldið völdum væri nú risinn „nýr og nútímalegur spítali á Vífilsstöðum.“

Katrín ýjaði að því að sú skoðun hans væri ástæðan fyrir því hvers vegna framkvæmdir hófust ekki fyrr en eftir hans tíma í ráðuneytinu. Það hefði verið niðurstaða margra heilbrigðisráðherra í röð úr röðum margra flokka að ráðast í Hringbrautarverkefnið.

Marxíska kerfi ríkisstjórnarinnar

Sigmundur nýtti tækifærið og skaut föstum skotum á kerfið. „Já því það var ákvörðun kerfisins sem hafði ákveðið það fyrir 20 árum síðan. Ég heyri ekki marga verja þessa ákvörðun á annan hátt en að segja: það var búið að vinna svo lengi að þessu, við þurftum að fá að klára mistökin‘,“ sagði hann og benti á  að það væri margt í kerfinu sem þyrfti að laga sem ekki væri leyst með auknum ríkisútgjöldum.

„Eins og til dæmis að úthýsa sjálfboðaliðastörfum mikilvægra stofnana sem hafa verið að veita gríðarlega mikilvæga þjónustu áratugum saman. Krabbameinsfélagið, SÁÁ. Þetta er einhvern vegin allt illa séð í þessu nýja marxíska kerfi sem ríkisstjórn Katrínar og Sjálfstæðisflokks og fleiri hafa verið að koma á.“

“Þetta er einhvern vegin allt illa séð í þessu nýja …
“Þetta er einhvern vegin allt illa séð í þessu nýja marxíska kerfi,“ sagði Sigmundur. Skjáskot/Hringbraut

Katrín sagðist ekki kannast við þetta viðhorf og hampaði störfum félaganna sem Sigmundur Davíð vísaði til.

Heilsugæslan fyrsta stopp

Þar næst varpaði Katrín ljósinu á kerfisbreytingar og að tekist hefði að efla heilbrigðiskerfið með því að efla heilsugæsluna og að hún verði með því fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu.

„Við erum öll búin að tala um þetta, ég hef setið á þingi síðan 2007 og mér finnst ég hafa heyrt stjórnmálamenn úr öllum flokkum vera að sammælast um að þetta sé mikilvæg kerfisbreyting sem er að eiga sér stað,“ sagði Katrín. Það hafi gerst á þessu kjörtímabili.

„Það er bæði búið að bæta fjárframlög til heilsugæslunnar en það er til þess að ná meiri árangri,“ sagði hún og nefnir sem dæmi fjölbreyttari þjónustu og teymisvinnu en áður, til að mynda sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar.

Katrín nefndi fjölbreyttari þjónustu og teymisvinnu en áður, til að …
Katrín nefndi fjölbreyttari þjónustu og teymisvinnu en áður, til að mynda sálfræðiþjónustu á heilsugæslu. Skjáskot/Hringbraut

„Þetta er raunveruleg kerfisbreyting sem er að verða og í takt við það sem að Sigmundur sagði hér áðan.“

„Heilbrigðisstefna Marteins Mosdals“

Sigmundur svaraði um hæl: „Þetta er bara heilbrigðisstefna Marteins Mosdals. Allt skal vera undir ríkinu og ríkið skal vera við Hringbraut í Reykjavík.“

Stutt þögn varði áður en Katrín svaraði:

„Ég bara ætla ekki einu sinni að fara inn í þetta Sigmundur. Nú ert þú að reyna að æsa mig hér upp og ert búinn að draga fram sjálfan Martein Mosdal upp í því,“ sagði hún og benti á að útgjöld til heilbrigðiskerfisins hafi aukist á hvern einstakling sem og hlutfall af landsframleiðslu og það hafi verið búið að efla það áður en faraldurinn skall á.

Það skipti máli, enda hafi faraldurinn verið mikið álagspróf fyrir heilbrigðiskerfið. „Ég held að, þvert á flokka, getum við sagt það að Íslenska heilbrigðiskerfið hafi staðið sig ótrúlega í gegn um þennan faraldur,“ sagði Katrín.

„Er fjármálaráðherra sammála því?“ sagði Sigmundur þá og skaut inn að sátt ríkti um ánægju í garð heilbrigðisstarfsfólks en ekki endilega kerfisins sem slíks.

„Já heilbrigðisstarfsfólk en líka þá staðreynd að hér erum við með jafnan aðgang að heilbrigðiskerfi. Og til að mynda það að fólk þarf ekki að borga til þess að mæta í einkennaskimun svo dæmi sé tekið,“ sagði Katrín og benti á að hún hafi í gegn um allan faraldurinn talað fyrir samstarfi opinbera geirans og einkageirans í baráttunni gegn faraldrinum, til að mynda í samstarfi ríkisins við Íslenska Erfðagreiningu.

„Þá kemur hér Sigmundur og lætur eins og hér sé einhver algjör ríkisvæðing á ferð. Það sjá auðvitað allir að þetta stenst ekki skoðun.“

„Marxismi sagði hann,“ sagði Páll.

„Já og Marteinn Mosdal, höldum því til haga,“ sagði Katrín og hló.

Allir voru vinir eftir að rifist var með heilbrigðismál.
Allir voru vinir eftir að rifist var með heilbrigðismál. Skjáskot/Hringbraut
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert