Barn fékk blóðtappa í lungu eftir Covid-19

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það lagðist inn barn sem þetta svokallaða MICS-afbrigði sem er bólgusvar í líkamanum sem veldur mikilli og alvarlegri bólgu í líkamanum eftir Covid-19. Í þessari bylgju, frá því að delta-afbrigðið kom hér fyrst, hafa þrjú börn verið lögð inn á spítalann með alvarlega fylgikvilla eftir Covid-sýkingu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is, um veikindi barna í núverandi bylgju heimsfaraldursins. 

„Það var barn sem var með blóðtappa í lungum eftir Covid-sýkingu, það var barn sem fékk mjög alvarlega lungnabólgu og lungnaeinkenni eftir Covid-19 og svo þetta barn sem fékk alvarlegt bólgusvar í líkamanum. Svo að við höfum séð allavega þrjú sem hafa veikst alvarlega.“

Höfum tilhneigingu til að gleyma

Þórólfur segir að hér á landi sé ljóst hvaðan sýkingar komu til landsins og eins og staðan sé í dag sé rétt að beita áfram þekkingu okkar á faraldrinum til að hefta útbreiðsluna. 

„Á meðan faraldurinn er ennþá í uppsveiflu og mikilli útbreiðslu, og hann er það svo sannarlega ennþá í mjög mörgum löndum – við höfum tilhneigingu til að gleyma því og halda að þetta sé bara búið – þá þurfum við að reyna að yfirkeyra ekki spítalakerfið hér. Ég þreytist ekki á að benda á hvað gerðist í júlí þegar við afléttum öllu.“

Hjartabólga í kjölfar bólusetningar 

Í tilkynningu frá embætti landlæknis í dag kemur fram að fáar alvarlegar aukaverkanir hafa verið tilkynntar vegna bólusetninga barna á aldrinum 12-15 ára við Covid-19 til þessa dags. 

„Eitt tilvik hjartabólgu eftir bólusetningu 12-15 ára barns hefur verið staðfest á Barnaspítala Hringsins fram til 11. október, engar tilkynningar hafa borist um gollurshússbólgu hjá þessum aldurshópi,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að börn sem eru of ung til að fá bólusetningu við Covid-19 séu um 40 prósent þeirra sem eru í einangrun með sýkingu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert