Ísland fær áminningu frá ESA

EES-ríkjum er heimilt að takmarka för EES-borgara milli landa til …
EES-ríkjum er heimilt að takmarka för EES-borgara milli landa til að hefta útbreiðslu Covid-19. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísland hefur fengið formlega áminningu frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Tilefnið eru lög sem kveða á um aðgangstakmarkanir til landsins en að mati ESA mismuna þau EES-borgurum búsettum á Íslandi. Yfirvöld hafa tvo mánuði til að svara fyrir þetta áður en ESA tekur ákvörðun um hvort að fara skuli lengra með málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu EFTA.

Lögin sem um ræðir voru sett á í maí 2021 og kveða á um skyldu flugrekenda til að kanna hvort farþegar hafi tilskilin vottorð eða staðfestingu um neikvætt próf vegna Covid-19 áður en þeim er hleypt um borð í flugvél sem er á leið til Íslands.

Ef farþegar uppfylla ekki skilyrðin ber flugrekendum að synja þeim um aðgang að fluginu. Þessi skylda er þó takmörkuð að því leyti að hún nær ekki til íslenskra ríkisborgara og að mati ESA er því verið að mismuna erlendum EES-borgurum með óréttmætum hætti sem eru löglega búsettir á Íslandi.

Ákvæði í bága við EES-lög

„EES-ríkjum er heimilt að takmarka för EES-borgara á milli landa til að hefta útbreiðslu Covid-19. Slíkar takmarkanir skulu þó ekki ganga lengra en nauðsynlegt er, auk þess sem þær verða að vera samræmdar og mega ekki mismuna,“ segir í tilkynningunni.

Í þeim samskiptum sem ESA hefur átt við íslensk stjórnvöld telur eftirlitsstofnunin sig ekki hafa hlotið viðunandi svör sem sýna fram á að aðgerðirnar gæti meðalhófs.

Þar að auki telur ESA að ákvæði í reglugerð settri á grundvelli ofangreindra laga fari í bága við EES-lög, en ákvæðið sem um ræðir felur í sér að ekki skuli líta á takmarkanirnar sem neitun um far. Kemur þetta í veg fyrir að farþegar geti farið fram á skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert