Hopp lagði Færeyjar

Hopp lagði Færeyjar í Eystri landsrétti Danmerkur í síðustu viku. …
Hopp lagði Færeyjar í Eystri landsrétti Danmerkur í síðustu viku. Hjólunum má ekki líkja við smámótorhjól, líkt og Akstovan taldi, og er Hopp því heimilt að hefja rekstur. Ljósmynd/Hopp

Eystri landsréttur í Danmörku hefur úrskurðað að lögreglunni í Færeyjum hafi ekki verið heimilt að leggja hald á fimmtíu rafskútur frá Hopp.

Akstovan, sem svipar til Samgöngustofu hér á landi, taldi að sömu reglur giltu um hjólin og smámótorhjól [e. pocket bikes], sem eru ólögleg í Færeyjum. Fékk Akstovan lögreglu til þess að leggja hald á hjólin og læsa þau inni í kjallara. 

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp ehf., fagnar þessari niðurstöðu en segir miður að hafa þurft að reka málið fyrir dómstólum. „Við viljum ekki þurfa að fara í hart við yfirvöld, það er yfirlýst stefna okkar að vinna með þeim,“ segir hann. Málið hafi verið unnið í góðri sátt við borgaryfirvöld í Þórshöfn og hjólin flutt inn löglega.

Færeyskir miðlar: „Davíð vann Golíat“

Hopp mun þá á næstunni hefja rekstur í Færeyjum með vilyrði yfirvalda aftur en að þessu sinni með Akstovunni í liði. „Þá getum við boðið Færeyingum upp á umhverfisvænni leið til þess að komast um bæinn sinn heldur en einkabílinn,“ segir Eyþór léttur.

Færeyskir miðlar hafa fylgst grannt með málinu og sló dagblaðið Dimmalætting upp fyrirsögninni „Davíð vann Golíat: Hopp vann Þórshöfn“. Vefútgáfan ræddi þá við Ebenezer Þórarinn Ásgeirson, sem taldi þetta stóran dag og sigurinn mikilvægan.

Þá hefur miðillinn sömuleiðis rætt við lögregluyfirvöld í Færeyjum sem kveðast ætla að læra af dóminum og lætur hjólin fimmtíu af hendi.

Akstovan taldi sömu reglur gilda um smámótorhjól og Hopphjólin. Áhugaverð …
Akstovan taldi sömu reglur gilda um smámótorhjól og Hopphjólin. Áhugaverð samlíking. Ljósmynd/Wikipedia.org

Borgaryfirvöld ánægð að fá Hopp en Akstovan síður

Eyþór segir að málið hafi verið unnið í góðri sátt frá byrjun.

„Við finnum þarna aðila sem vill opna, sem sérleyfishafi í Færeyjum. Hann fer í vinnu sem allir sérleyfishafar þurfa að fara í, þ.e. að tala við borgaryfirvöld. Því okkar markmið sem rekstraraðili er ekki að koma inn tímabundið með einhver hjól fyrir túrista heldur vera virkilega partur af samgönguflóru sveitarfélagsins,“ segir Eyþór. Borgaryfirvöld í Færeyjum hafi verið ánægð með að fá Hopp, þó svo að ekki væri til staðar formlegur lagarammi um hjólin.

„Nema hvað. Síðan þegar við opnum kemur Akstovan og ákveður að rafhlaupahjólin séu skilgreind sem eitthvað sem þau kalla pocket-bikes, sem er í raun lítið mótorhjól sem er hannað til þess að vera keyrt á kappakstursbraut. En það stenst ekki skoðun vegna þess að hlaupahjól eru ekki hönnuð til þess að vera keyrð á kapp, þau fara ekki hraðar en 25 km/klst og þau eru ekki lítil og hættuleg tæki,“ segir Eyþór. Þessi samanburður er ekki til marks um mikla virðingu fyrir rafskútunum að mati blaðamanns.

Eyþór er ánægður með niðurstöðuna en segir miður að hafa …
Eyþór er ánægður með niðurstöðuna en segir miður að hafa þurft að taka málið fyrir dóm. Ljósmynd/Hopp

Færeyskir dómstólar staðfestu eignaupptökuna

„Við erum komin á þann stað að skatturinn er búinn að flokka þessi tæki og segja að þetta séu ekki smámótorhjól, en þarna er bara einhver maður hjá Akstovunni sem svona, grípur inn í. Hann beitir valdi til þess að láta lögregluna taka hjólin eignaupptöku án þess að kæra okkur því lögreglan vill ekki nota þennan lagabókstaf til þess að leggja fram kæru segir Eyþór.

Þá hófst málareksturinn fyrir færeyskum dómstólum, sem stóðu með Akstovunni og töldu réttmætt að leggja hald á hjólin. Málið náði alla leið til Danmerkur og hnekkti eystri landsréttur niðurstöðunni.

„Þar vinnum við málið mjög skýrt. Þau fara yfir öll rökin og komast að því að þetta hafi verið ólögmæt eignaupptaka og Hopp má vera þarna með rekstur,“ segir Eyþór. „Og það er planið.“

Hopp hefur vaxið hratt á stuttum tíma.
Hopp hefur vaxið hratt á stuttum tíma. Ljósmynd/Hopp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert