Áttar sig ekki á eitruðum kúltúr

Drífa segir að Ragnar verði að skýra mál sitt betur.
Drífa segir að Ragnar verði að skýra mál sitt betur.

Drífu Snædal, forseta ASÍ, finnst eðlilegt að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, útskýri betur hvað hann á við með því þegar hann segir eitraðan kúltur viðgangast innan Alþýðusambandsins. Þetta kom fram í máli Drífu í þættinum Silfrið á RÚV. Hún sagði átök greypt í DNA verkalýðshreyfingarinnar og umræðan gæti orðið persónuleg og óvægin.

„Mér finnst nú kannski eðlileg krafa á hann að hann útskýri betur við hvað er átt, af því ég átta mig hvorki á málefnalegum ágreiningi, né þessum eitraða kúltur. Hver ber ábyrgð á því eða hvernig það er,“ sagði Drífa.

Benti hún á að Ragnar væri annar varaforseti ASÍ og þau væru í þéttu sambandi. „Við erum með mjög góða lýðræðislega ferla innan ASÍ þar sem eru teknar ákvarðanir. Þar hefur Ragnar haft mjög mikil áhrif til góðs.“

Drífa sagði því spjótin standa að honum að útskýra hvað hann ætti við.

Eins gott að verkalýðshreyfingin sé sameinuð

Ragnar sagði í samtali við mbl.is á föstudag að hann hefði upplifað skoðanakúgun og grímulaust hatur innan Alþýðusambandsins. Hann hafi aldrei upplifað sig velkominn á þessum vettvangi. Hann hafi reynt að vera góði gæinn og halda sig á mottunni en viðhorfið breytist ekki og muni aldrei breytast. Fyrir honum væri það fullreynt að reyna að vinna að uppbyggilegum málum innan ASÍ, en það væri nú stjórnar og trúnaðarráðs VR að ákveða hvort félagið yrði áfram innan vébanda sambandsins.

Ragnar segir eitraðan kúltúr viðgangast innan ASÍ.
Ragnar segir eitraðan kúltúr viðgangast innan ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Egill, stjórnandi Silfursins, spurði Drífu hvaðan þessi eitraði kúltúr kæmi, en hún sagðist eiga erfitt með að festa fingur á það. Hins vegar væri það ekki nýtt að Ragnar talaði um það hvort VR ætti heima innan ASÍ.

„Um það vil ég segja að í þessum risastóru verkefnum sem eru framundan hjá okkur þá er eins gott að verkalýðshreyfingin sé sameinuð og það er líka hagkvæmt að ýmis verkefni séu á borði ASÍ.“

ASÍ hefði verið að styrkja sig og hún teldi að almenningur sæi það. Ásýnd, umræðan og það hvernig ASÍ beiti sér hafi breyst á síðustu árum og að enginn hafi farið varhluta af því.

Umræðan í grunninn ólýðræðisleg 

Drífa sagði hins vegar átök innbyggð í DNA verkalýðshreyfingarinnar, enda væri fólk baráttuglatt. Hún sagði umræðuna oft verða mjög persónulega en sjálf ætlaði hún ekki að kveinka sér undan henni.

„Þegar umræðan verður mjög persónuleg og óvægin þá eru mjög margir sem treysta sér ekki til að taka þátt í henni sem hafa þó ýmislegt að segja. Af því þú vilt ekki lenda í persónuárásum og orrahríð. Þannig verður umræðan í grunninn ólýðræðisleg af því það eru ekki allir sem treysta sér til að taka þátt í henni. Hún verður útilokandi og held við eigum að reyna að hefja okkur yfir það. Þess vegna kalla ég eftir einhverjum málefnalegum ágreiningi til að takast á um.“

Drífa ítrekaði hins vegar að ef einhvern tíma þyrfti sameinaða öfluga verkalýðshreyfingu þá væri það núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert